Sem barn og unglingur skiptir máli að vera hluti af hópi og forvarnagildi slíks er óumdeilt. Ég er skáti, ég æfði handbolta, lærði á klarinett hjá Siguróla heitnum Geirssyni og spilaði í lúðrasveit Tónlistarskóla Njarðvíkur undir stjórn Arnar Óskarssonar. Ég var ung í fyrstu stjórn sameinaðrar björgunarsveitar Njarðvíkur og Keflavíkur og fæ alltaf nettan fortíðarspenning í magann þegar líður að árlegum undirbúningi flugeldasölu. Þetta mótaði mig allt saman á einn eða annan hátt.

Íþróttastarf í bæjarfélögum er mikilvægt og gott. Sérstaklega hér í Hafnarfirði þar sem allt virðist blómstra. Einnig listar- og menningarstarf og á sama hátt og í íþróttum mótast þar ungt fólk og ræktar hæfileika sína og áttar sig á styrkleikum. Það verður jafnvel afreksfólk, átrúnaðargoð og góðar landkynningar þegar það vex úr grasi.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef ver Hafnarfjarðarbær 1200 milljónum á ári í íþrótta- og tómstundastarf, m.a. í formi niðurgreiðslna. Sem er besta mál. 5 milljónum er úthlutað í árlega menningarstyrki sem fólk í listar- og menningargeiranum deilir á milli sín, jafnvel fjölmennir hópar sem standa fyrir viðburðum, halda utan um hópa ungs fólks og verja frítíma sínum í það. Ég er ekki að stilla þessu andspænis hvert öðru, heldur benda á áherslumuninn.

Ég veit um ungt íþróttafólk sem stundar einnig tónlistarnám og er í kór, lúðrasveit eða öðru menningarstarfi. Það gengur að styrkjum vísum í íþrótta- og tómstunda starfinu en slíkar niðurgreiðslur er ekki um að ræða í öllu virku menningarstarfi sem t.d. tengist tónlist. Það er í raun ótrúlega kraftmikið tónlistarlíf í Hafnarfirði þrátt fyrir að það sé mikið til sjálfsprottið og rekið af hugsjón og óbilandi áhuga.

Olga Björt Þórðardóttir, ritstjóri.