Við enda Austurgötu, við lækinn, stendur fallegt þriggja hæða hús, númer 47. Það var byggt í byrjun 20. aldar og hefur hýst ýmis konar starfsemi, m.a. matarbúð. Árið 1990 keyptu hjónin Þóra Þórisdóttir og Sigurður Magnússon húsið og 20 árum síðar hófu þau rekstur Gömlu matarbúðarinnar undir heitinu Urta Islandica.

Það sem fyrst var á kennitölu Þóru en árið 2013 fór það yfir í einkahlutafélag. Þóra og Sigurður eiga fyrirtækið ásamt börnunum þeirra fjórum, systur og móður. Í dag er rekstur þess í höndum hjónanna, Láru dóttur þeirra og Fríðu systur Þóru og eru starfsmenn allt að 16 yfir sumartímann.

Upphaflega átti fyrirtækið að vera matvörubúð en smám saman tók heildsöluvöruhlutinn yfir og í dag er þarna tedeild, sýróps- og sultudeild og saltdeild.  „Við sérhæfum okkur í íslenskum jurtum og berjum og framleiðum úr þeim íslenskar matargjafarvörur.  Pökkunin og sultuframleiðslan eru í bakhúsinu, auk þess sem við höfum verið með þrjú framleiðslubil í Fornubúðum,“ segir dóttirin og hönnuðurinn Lára. Framleiðsla og vinnsla munu flytja að Básvegi í Reykjanesbæ, þar sem stefnan er að hafa glerskilrúm svo hægt sé að sjá framleiðsluna. Sultugerðin verður áfram við Austurgötu. Þá er Lára flutt á Höfn í Hornafirði og kemur til greina að hún taki með sér tedeildina þangað, en í dag stýrir hún sölu og markaðsstörfum þaðan. „Við leituðum lengi að hentugu húsnæði fyrir framleiðsluna í Hafnarfirði og nágrenni sem við hefðum efni á en það tókst því miður ekki,“ segir Þóra.

„Hvað er hún að gera núna?“

Hugmyndin að því að stofna fyrirtækið var að nýta kjallara hússins fyrir eigin starfsemi sem gæti gefið leigutekjur. „Þetta var sjálfsbjargarviðleitni í hruninu. Við vildum við nýta kjallarann því við höfðum nýverið tekið lán til að klæða húsið. Við ætluðum að leigja neðri hæðina út til að greiða framkvæmdalánið. Þá var þetta vinnustofa hjá mér,“ segir myndlistakonan Þóra  og bætir við að á þeim tíma var áberandi umræða um sjálfbærni, ef landið skyldi lokast. Hvar hægt yrði að ná í steinefni, vítamín og slíkt. „Ég sá fram á að þurfa að punga út mörgum tugum þúsunda á mánuði í bætiefni fyrir fjölskylduna. Þau voru svo dýr í apótekum. Ég byrjaði þá að huga að teframleiðslu. Þurrkaði og malaði aðalbláber og setti í poka. Við bjuggum til í framhaldi af því smá vörulínu, en það tók okkur næstum eitt og hálft ár að prófa okkur áfram. Fjölskyldan hefur oft grínast með það að í byrjun var Þóra alltaf að brasa eitthvað í kjallaranum, „Hvað er hún að gera núna?“. Þá komu upp í eldhús með nýjustu tilraunir af ýmsum sýrópum og blöndum.

Ekki lengur UHU-lím

Eigendur og starfsfólk eru ekki jurtalæknar en hafa sótt fjölda námskeiða til að auka eigin vitneskju. Einnig er mikill skóli að hefja rekstur. „Hönnunin er heimagerð og lengi vel prentuðum við alla merkimiða út á laseprentara og límdum með UHU-lími. Sjálflímandi pappír er mjög dýr. Seinasta sumar tókum við síðustu UHU-vöruna úr sölu og laserprentarinn er kominn til Hafnar með mér, “ segir Lára og bætir við að tilraunamennskan hjá þeim sé ekkert ólík því sem móðir hennar fékkst við í sinni listsköpun áður en hún stofnaði fyrirtækið. En vöruhönnunin og litablöndunin er álíka ferli og önnur sköpuní listaheiminum.

200 vörunúmer  í 60 verslunum

fyrsta_varan

Íslenskt urtate. 100% úr aðalbláberjum.

Framleiðsla á tei gekk vel og í framhaldinu var farið út í jurtasölt og sýróp. „Við fórum í Kolaportið gerðum okkar eigin vísindalegu tilraun með nokkur stykki til að sjá hvað seldist best. Við urðum svo hissa því salan þarna endurspeglaði í raun hlutfall af sölunni síðar hjá fyrirtækinu þegar horft er á breytur eins og  kyn,  Íslendinga/útlendinga, aldur og svo framvegis. Þá var túrisminn ekkert komin af stað en við tókum eftir áhuga hjá þeim útlendingum sem komu í Kolaportið,“ segir Þóra . Síðan vatt þetta bara upp á sig og vörurnar fóru hægt og bítandi inn í verslanir. Fyrst í þrjár búðir en í dag eru vörunúmerin  orðin yfir 200 í yfir 60 verslunum; sælkerabúðum, hönnunarbúðum, ferðamannaverslunun og eru komnar í Hagkaup í Kringlunni.

Vilja vera til að vera

4

Lakkríssalt og villiberjasalt. Mjög vinsælt í matreiðsluna.

Gamla matarbúðin er í nánu stamstarfi við Norðursalt á Breiðafirði. „Við framleiðum okkar saltblöndur úr þeirra salti og á móti framleiðum fyrir þá bragðtegundir, s.s rabarbara-, bláberja- og lakkríssalt,“ segir Lára. Árið 2014 þurftu þau ekki lengur að hafa fyrir því að koma vörunum sínum að og í raun hafi viðskiptavinir bara orðið að fara í röð. „Framleiðsluferlið er svo langt. Það þarf að vita ári áður hversu mikið þarf að tína, þurrka og allt það. Svo þarf að þjálfa nýtt starfsfólk og húsnæðið er of lítið.“ Það sé líka ákveðin sérstaða að baki vörunum. Allt sé handtínt og handpakkað og eina vélin sem þau noti er tepökkunarvél. „Við vildum bara gera þetta á okkar hraða og horfa til langtíma. Vera til að vera.“

Auðvelt að stækka við sig

Í stað þess að blása út á stuttum tíma skoðuðu þau alla innviði, skráðu allar jurtirnar og eru með mjög flókið kerfi. „Hvert einasta handtak og uppskrift eru brotin niður. Alveg niður í blekið á miðanum. Það er hægt að rekja allt ferlið til þess sem gerði blönduna, tíndi, pakkaði o.s.frv.“ Þær mæðgur segja að sú vinna hafi haft betri áhrif en þær gátu ímyndað sér. „Við erum búnar að ná þokkalega góðum tökum á þessu. Í dag er auðveldara fyrir okkur að stækka við okkur og við vitum hvað þarf til og hvað það  kostar. Við höfum það líka að markmiði að enginn er ómissandi og með mikla og dýrmæta vitneskju í heilanum. Þetta reyndist líka mjög gott því það voru allir með athyglisbrest til að byrja með og óðu úr einu í annað,“ segja þær hlæjandi.