Erla Ragnarsdóttir er nýr aðstoðarskólameistari í Flensborg. Hún hefur starfað við skólann frá árinu 2002, fyrst sem sögukennari, en einnig sem sviðsstjóri félagsgreina.

Auk þess að kenna við Flensborg hefur hún m.a. kennt við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, starfað sem frétta- og dagskrárgerðarkona og tónlistarkona. Þá hefur hún stýrt útgáfu Gaflarans og gefið út bækur, svo nokkuð sé nefnt.

Framtíðin björt

Erla Ragnarsdóttir, aðstoðarskólameistari Flensborgarskólans

Erla Ragnarsdóttir, aðstoðarskólameistari Flensborgarskólans

„Nýja starfið leggst vel í mig enda um margt spennandi tímar framundan í Flensborgarskólanum. Við sjáum loksins til lands í kjölfar styttingar náms og breytinga á kjaraumhverfi kennara. Um leið höfum við staðið vörð um gæði námsins og við erum því fullviss um að framtíðin er björt fyrir Flensborg. Nú gefst vonandi tækifæri til að líta inn á við, styrkja skólabraginn og hvetja fólkið okkar til áframhaldandi góðra verka og ég hlakka til þess.“ Segir Erla.

Margir á nýrri braut

Nú leggja margir nýir nemendur leið sína á Hamarinn. „Í haust er skólinn nánast fullur og telur um 770 nemendur. Kynjaskiptingin er nokkuð jöfn frá ári til árs, þó eru strákarnir ívið fleiri og það gæti tengst íþróttaafrekssviði en þar eru um 200 nemendur skráðir til leiks.

Nýnemahópurinn okkar að þessu sinni er stór og myndarlegur, eða 214 í allt. Og hópurinn er fjölbreyttur, flestir eru skráðir á raun- og félagsvísindabraut, sem er nokkuð hefðbundið en margir eru einnig skráðir á nýja braut, opna braut. Það verður gaman að fylgjast með því hvernig þeir nemendur ætla að nýta sér aukið svigrúm í námi.“ Segir hún.

Nýtt fólk í skólanum

„Fjórtán nýir starfsmenn mættu til starfa á undirbúningsdögum í síðustu viku.“ Erla segir þetta að mörgu leyti eðlilega starfsmannaveltu, því nokkrir starfsmenn hafi látið af störfum síðastliðið vor. „Fjórir eru í leyfi á yfirstandandi skólaári og það þarf að fylla í skörðin. En við erum einnig að fara af stað með ný verkefni, þar af nokkur sem tengjast baráttunni gegn brotthvarfi nemenda,“ segir hún og bætir við að þau hafi t.a.m. ráðið sálfræðing til starfa í Flensborg til að efla nemendaþjónustuna enn frekar.

Nám við hæfi

Aðspurð um breytingar á námskrá vegna styttingar náms til stúdentsprófs segir hún þær felast einna helst í samræmingu náms á milli grunn- og framhaldsskólastigsins. „Að nemendur sem lokið hafi ákveðnum hæfnimarkmiðum grunnskólans geti strax farið að glíma við nám við hæfi í framhaldsskóla og farið hraðar yfir. Námið ætti að vera einstaklingsmiðaðara og þannig getum við vonandi komið í veg fyrir brottfall.“

Jákvæð menntun

Flensborgarskólinn hefur verið brautryðjandi á ýmsum sviðum, t.d. var hann einn af fyrstu skólunum til þess að taka upp fjölbrautakerfi. En eru einhverjar nýjungar í deiglunni? „Við erum forystuskóli í heilsueflingu, tókum það verkefni fyrst upp allra framhaldsskóla á landinu og erum afskaplega stolt af þeirri vinnu. Við leggjum einnig mikla áherslu á hugtakið jákvæða menntun í okkar skólastefnu. Að nemendur fái tækifæri til að uppgötva og vinna með styrkleika sína. Að þeim líði vel í skólanum og glími við verkefni við hæfi þannig að reyni á bæði hæfni nemenda til að leita lausna og þekkingar.

Þetta vinnum við markvisst með í öllum áföngum en sérstök áhersla er lögð á þetta hugarfar í nýjum áfanga sem heitir Hámark, nokkurs konar sjálfs- og hópeflingu sem hvetja á nemendur okkar til ábyrgðar á eigin vellíðan og velgengni í námi allt frá fyrsta degi. Svo erum við forvitin um leiðsagnarmat, lotubundið nám og fleira og veturinn fer að venju í að kynna okkur hina ýmsu strauma og stefnur í skólapólitík.“ Segir Erla.

Erla Dúkkulísa

Að lokum mætti spyrja um breyttar áherslur nú þegar rokkarinn og Dúkkulísan Erla Ragnars er orðin aðstoðarskólameistari. „Það þykir mér nú ólíklegt,“ segir Erla hlæjandi. „Við göngum öll í takt hér uppi á Hamrinum og við stefnum ótrauð á að halda áfram okkar góða starfi. Skemmtilegast er að umgangast allt þetta unga fólk sem streymir inn til okkar þessa dagana. Það verður gaman að fylgjast með því blómstra í vetur.“