Mínar fyrstu minningar af Hafnarfirði eru þegar ég var að koma frá útlöndum með foreldrum mínum og sá glitta í tvo stóra hvíta og rauða turna sem ég hélt þá að væru eldflaugar, svona eins og í Tinnabókunum. Við þessar eldflaugar var svo lengsta raðhús í heimi. Væntanlega einhver háleynileg eldflaugaverksmiðja. Ég komst svo að því, mér til ákveðinna vonbrigða, að þetta var bara álver og að eldflaugarnar væru bara geymdar undir súrál. Bömmer.

Ég veit að þessi mannvirki voru lengst upp í sveit þegar ákveðið var að planta þeim þarna. Í dag eru þau hins vegar nánast í garðinum mínum. Ég verð nú að viðurkenna að ég gæti alveg hugsað mér fallegra garðskraut. Ég er svo sem ekkert hræddur við mengunina eða eitthvað slíkt, þetta er bara svo hræðilega ljótt. Eins og staðurinn sjálfur er fallegur, þarna þar sem Kaldáin kyssir Atlantshafið.

Ég hef velt því fyrir mér hvort það væri ekki þjóðráð að fara að fríkka eitthvað upp á þetta. Væri til dæmis ekki hægt að fá einhvern listamann til að búa til flott listaverk á sílóin? Annað eins hefur nú verið gert. Meira að segja á vegg sem er hálfur í hvarfi bak við aðra blokk í Breiðholtinu. Þarna erum við að tala um risa turna sem nánast hver einasti maður myndi sjá sem kæmi til landsins. Bjóði aðrir betur. Svo væri líka flott að poppa kerskálana eitthvað upp, eða þá í versta falli smella upp einhverju töff skilrúmi. Það er allt meira aðlaðandi en þetta bárujárn í 80´s baðherbergisgrænum lit.

Kannski erum við orðin svona vön því að hafa þetta bárujárnskrímsli í garðinum að við erum hætt að spá í það. Þetta er bara partur af Hafnarfirði, svona eins og valbráin á skallanum á Gorbatchow. Hálfgert vörumerki. Ef við stígum tvö skref aftur og virðum þetta fyrir okkur þá sjáum við samt að þetta er ekki neitt rosalega flott vörumerki. Að fegra álverið væri flott tækifæri fyrir þann listamann sem fengi þennan risastóra striga. Það væri frábært fyrir okkur.