„Beygðu til vinstri tvöhundruð metrum vestan við hestagerðið“.

Þetta voru leiðbeiningarnar sem ég heyrði mann gefa öðrum hér á Strandgötunni.

Mér hlýnaði ægilega um trénaðar hjartaræturnar við að heyra þetta innanbæjar og við að sjá hrauka af hrossaskít á dreif um götuna.

Mér leiðist nútíminn. Hann er orðinn eitthvað svo hreinn, svo gerilsneyddur, svo fullur af „passaðu þig“ reglum svo þú upplifir lífið örugglega á réttan, öruggan og gerilsneyddan máta, og ekki öðruvísi.

Ég hef séð svartan hrábít á vappi um miðbæinn án þess að af hlytist mannskaði og börnin mín klófestu mjög smágerða risaeðlu í sumar. Risaeðlan er auðvitað hæna og hrábítur er annað orð yfir kanínu.

Ég vil fá hesta í miðbæinn.

Ég vil fá hnausþykkan staur láréttan fyrir utan Súfistann og önnur sambærileg establissment og tvöhundruð lítra vatnstrog svo hægt sé að brynna skepnunum meðan reiðmaðurinn fær sér kaffi, kökur og vínarbrauð.

Já en, já en, já en…hrópar einhver reglugerðar- og skiltagerðarmeistarinn.

Mér er alveg sama hvað honum finnst.

Mitt djobb (algerlega sjálftekið) er að fá hugmyndir, svo erum við með fólk með menntun og gleraugu og skrifstofu sem getur leyst úr flækjunum.

Knapar yrðu að lúta sömu reglum og hundaeigendur sem þýðir að þeir þyrftu að ríða um með innkaupasekki og skóflu til að hreinsa upp taðið eftir skepnurnar.

Bærinn þyrfti svo að svera upp allar ruslatunnurnar og dygði ekkert minna en olíutunna við annan hvern staur.

Þetta yrði eintóm hamingja

Er maðurinn að meina þetta kann einhver að hugsa, eða datt honum bara ekkert annað í hug til að fylla upp í pistil.

Tja…

Ást og friður

Tommi.