Sveitarstjórnarmál eru fjölskyldumál og því mikilvægt að við völd séu einstaklingar sem af áhuga og með hjartanu vinna að þeim málum sem skipta íbúa bæjarfélagsins máli.  Taka þarf ákvarðanir með væntingar íbúanna í huga í samtali og sátt við þá.  Hafnarfjörður býr yfir fjölbreyttum möguleikum þegar kemur að afþreyingu og tækifærin eru endalaus. Fjárhagsstaða bæjarins er að mörgu leiti góð og sannarlega leynast í því tækifæri til að gera bæinn okkar eftirsóknarverðari.

Út að leika

Eitt af mikilvægu málum hvers bæjarfélags er að hlúa að menningu og listum.  Sem formaður menningar og ferðamálanefndar hef ég lagt ofur áherslu á að slíkt sé gert.  Sá fjársjóður sem felst í þeim listamönnum sem hér búa og þeim sem hingað koma er mikill.  Við höfum verið svo lánsöm að hingað hafa sótt einstaklingar sem hafa staðið fyrir vel  heppnuðum viðburðum.  Hér er leikhús sem við getum verið stolt af ásamt þeim fjölmörgu listamönnum sem hafa komið Hafnarfirði á kortið.  Þau tækifæri sem felast í opnum svæðum í Hafnarfirði eru spennandi. Í upphafi síðasta kjörtímabils var ráðist í að endurskoða nýtingu Víðistaðatúns, hafin er uppbygging og er ekki annað að sjá en grillhúsið og klifurgrindin mælist vel fyrir. Ég mun leggja mitt af mörkum við að endurskoða fleiri opin svæði og gera Hafnarfjörð að góðum stað til að leika sér í , hvort sem við erum börn, fullorðin eða komin á efri ár.  Það er mikilvægt að Hafnfirðingar taki þátt í sveitarstjórnarmálum og kjósi sér einstaklinga sem þeir treysta fyrir framtíð bæjarins.

Kristín Thoroddsen

Varabæjarfulltrúi og formaður menningar og ferðamálanefndar

Sækist eftir 2. sæti á framboðslista fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði