Jóhann Sigurðarson leikara og söngvara þarf vart að kynna en hann býr um þessar mundir í Hafnarfirði, eins og svo margt annað gott listafólk. Jóhann ætlar ásamt fríðum flokki á næstunni að syngja ný og eldri sjómannalög, að eigin sögn vonandi sem víðast um landið. Fjarðarpósturinn spjallaði aðeins við Jóhann.

„Tónlistarmaðurinn Friðrik Sturluson, bassaleikari í Sálinni, kom að máli við mig en við höfum unnið saman í stúdíóvinnu í mörg ár við talsetningu á barnaefni. Hann átti nokkuð mikið af sjómannalögum sem ekki höfðu verið spiluð opinberlega og hann vildi að ég syngdi þau,“ segir Jóhann. Þeir félagar ákváðu því að efna til tónleika með lögum og textum eftir Friðrik, en einnig verða þarna lög eftir Gunnar Þórðarson, Guðmund Jónsson (Sálar-mann) og Guðmund Árnason, en heitið á tónleikunum er það sama og á lagi eftir síðarnefndan Guðmund; Flottasta áhöfnin í flotanum. Friðrik á þó alla textana.

Flottasta áhöfnin í flotanum

Auk nýrra sjómannalaga verða eldri sjómannalög í bland. „Ég hafði einnig samband við Egil Ólafsson, gamlan og góðan vin minn og hann ætlar að taka nokkur lög líka, meðal annars dúett með mér. Hann er orðinn svo mikill sjómaður,“ segir Jóhann brosandi og bætir við að tónleikarnir verði fyrst og fremst tileinkaðir sjómannastéttinni og dægurlagahefðinni sem þar sé að finna. „Dagskráin verður rosalega víðfeðm því það er endalaust hægt að finna falleg lög og vel ort kvæði sem eru flutt alltof sjaldan. Með mér og Agli verður vel mönnuð hljómsveit sem skipuð er af útsetjaranum Ástvaldi Traustasyni, Karli Olgeirssyni, Magnúsi Magnússyni (Eiríkssonar), Pétri Valgarði Péturssyni, Jens Hanssyni og Matthíasi Stefánssyni. „Tónleikarnir verða 10. nóvember í Salnum í Kópavogi og stefnt er á að halda áfram að leika þessi lög á fleiri stöðum. Þetta er jákvætt og skemmtilegt í miðju dægurþrasinu og áður jólaösin byrjar,“ segir Jóhann að lokum.

Hér er hægt að kaupa miða á viðburðinn.