Ef manni tekst, eins og mér tókst í liðnum mánuði, að drepast ekki samfleytt í fjörutíu ár, þá er maður kominn á fimmtugsaldurinn. Uppgötvunargleði æskunnar löngu horfin og núna eru allflestar tækninýjungar djöfulsins óþarfi og rugl. Aðallega vegna þess að ég nenni ekki að læra á þær. Þær uppgötvanir sem ég reyni hve mest að leiða hjá mér er innrás hvítra langra hára sem ryðjast upp og niður varnarlítinn skrokkinn eins og Hitler yfir Pólland. Það kom mér því lítið á óvart þegar eyrun kröfðust þess frekar að hlusta á fjasið á Rás 1 fremur en poppkúltúrinn á hinum stöðvunum.

Hins vegar varð ég pínu hissa þegar ég áttaði mig á því hversu leiðinlegur ég í raun er orðinn. Ég er sumsé orðinn áhugamaður um fjölgun hraðahindrana. Takk fyrir. Neðar kemst maður varla á skemmtilegheitaskalanum. Ég bý í miðbænum, nánar tiltekið á þeim hluta Austurgötunnar sem liggur milli Fríkirkju og Reykjavíkurvegar. Mjög fallegt og gróið hverfi en algerlega laust við göngustíga. Einhverra hluta vegna fá furðumargir bílstjórar bæjarins óstjórnlega þörf til að botnstíga bílkvikindin sín gegnum þennan stubb í stað þess að hegða sér skynsamlega.

Bærinn hefur ekki viljað spandera í hraðahindrun á þennan vegstubb og fór því svo að ég og ónafngreindur nágranni fengum frábæra hugmynd eftir að hafa innbyrt talsvert magn af Egils appelsíni eitt kvöldið. Við örkuðum vopnaðir kúbeinum upp á Smyrlahraun og stálum einni af þremur hraðahindrunum sem voru þar í þyrpingu sem minnti á þvottabretti. Þetta voru gúmmíhraðahindranirnar sem voru ekki óalgengar í denn. Þegar ég svo kom heim úr vinnu á mánudegi klyfjaður sérhönnuðum skrúfum til að festa hindrunina varanlega greip ég í tómt því bærinn var búinn að stela aftur bannsettri hraðahindruninni.

Smyrlahraunið fékk að sjálfsögðu varanlega hlaðna hraðahindrun. Því biðla ég til bæjarins…

Megum við plís fá þjófstolna góssið okkar aftur á Austurgötuna…plís