Kristján Björn Tryggvason greindist með heilaæxli í apríl 2006, þá var hann 24 ára gamall. Hann er kvæntur Kristínu Þórsdóttur og saman eiga þau þrjú börn og hundinn Kríu. Þau hafa verið búsett í Hafnarfirði síðan 2002 og segist Kiddi, eins og hann er kallaður, hvergi annars staðar vilja búa.

Tuggði sígarettu

„Ég var búinn að draga það í þrjá mánuði að láta kíkja á mig þrátt fyrir ýmis konar einkenni sem bentu til þess að ekki væri allt með felldu. Í janúar 2006 var ég að vinna á úrgangsolíubíl við að losa olíu úr skipum niður á höfn. Einn daginn var ég að keyra út af höfninni þegar ég ætlaði að skipta um gír. Allt í einu gat ég ekki stjórnað hægri hendi og fæti til að skipta um gír. Mér leið eins og hausinn á mér væri að snúast í hring og allt þetta stóð yfir í ca. mínútu. Ég náði sem betur fer að stoppa bílinn. Ég hringdi strax í konuna mína en gat ekkert talað, ruglaði bara. Skellti á hana og hringdi svo aftur þegar ég var búinn að jafna mig. Hún var í miklu sjokki og spurði hvor að það væri í lagi með mig en ég sagði henni að ég hefði bara fengið smá aðsvif, væri bara svangur og ætlaði að fá mér að borða. Næstu mánuði fékk ég nokkur „aðsvif“ sem við komumst svo að seinna að væru flogaköst. Í mars sama ár, var ég fyrir utan Bláa lónið að fá mér sígarettu þegar ég fékk aftur flogakast og þegar ég rankaði við mér var ég að tyggja eitthvað. Ég komst þá að því að ég var að tyggja sígarettuna. Þá taldi ég að kominn væri tími til að láta kíkja á hausinn á mér,“ segir Kiddi.

Greindist með annað æxli í sumar

Kiddi er 35 ára, með börn á aldrinum þriggja til þrettán ára. „Það er náttúrulega alveg ömurlegt að greinast með krabbamein sama hversu gamall þú ert. Það hefur mikil áhrif á fjárhag og fjölskyldu. En ég tók þessu einhvern veginn ótrúlega vel þótt ég ætti að eiga um 5 ár eftir. Ég var skorinn upp 2006 og 2007 og fór svo í geisla- og lyfjameðferð. Í janúar 2009 leit allt vel út og ég hélt áfram reglubundnu eftirliti. Svo greindist ég með annað æxli vorið 2015 sem var skorið burtu og í kjölfarið fór ég í lyfjameðferð. Ég greindist svo með annað æxli sem ekki er hægt að fjarlægja núna í sumar. Það sem ég geri er að taka þessu ekki of alvarlega, allir sem fæðast deyja einhvern tímann og mér finnst best að njóta lífsins á meðan það er hægt.“

Kraftur fyrir ungt fólk

Undanfarin ár hafa bæjarbúar fjölmennt í Flensborgarhlaupið. Í ár verður hlaupið fyrir Kraft.
„Það er alveg frábært! Kraftur er félag sem beitir kröftum sínum til þess að styðja við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum þeirra. Félagið er einungis rekið á styrkjum þannig að þetta kemur sér rosalega vel fyrir félagið. Við erum með starfandi sálfræðing þar sem félagsmönnum býðst að nýta sér eitt til þrjú skipti sér að kostnaðarlausu. Einnig erum við með janfningjastuðning og kaffihúsakvöld svo eitthvað sé talið. Ég hvet alla til að kíkja inn á síðuna kraftur.org“, segir Kiddi og bætir við að mikilvægt sé að styðja við ungt fólk sem lent hefur í fjárhagsörðugleikum vegna veikinda.

Sjálfur nýtir Kiddi sér þjónustu Krafts. „Ég er í Fítonskrafti, en þar hittumst við nokkur, sem höfum verið að glíma við krabbamein, í líkamsrækt tvisvar sinnum í viku hjá Atla í Heilsuborg. Endurhæfing í formi hreyfingar og útivistar skiptir miklu máli. Einnig eru kaffihúsakvöld á þriggja vikna fresti. Það er ótrúlega gaman að hittast og spjalla, bæði fyrir þá sem hafa haft eða eru með krabbamein og einnig aðstandendur. Það er gott að hitta fólk sem veit hvað maður er að ganga í gegnum.“

1000 þakkir

Að lokum spurðum við Kidda hvort hann vildi senda einhver skilaboð til þeirra sem standa að og taka þátt í Flensborgarhlaupinu. „1000 þakkir til ykkar allra sem styrkja Kraft, hver króna skiptir máli.
Kraftur er svo góður staður fyrir fólk sem þarf stuðning og það að kynnast fólki sem er í svipuðum sporum er ómetanlegt.“