Vinnumálastofnun stendur fyrir Fyrirmyndardeginum sem verður haldinn í fjórða sinn á morgun 24. nóvember. 

Vinnumálastofnun hefur af reynslu fyrri fyrirmyndardaga merkt að dagurinn  er mikilvægur liður í því að auka möguleika fatlaðs fólks á fjölbreyttari atvinnuþátttöku. Markmið dagsins er að  fyrirtæki og stofnanir bjóði atvinnuleitendum með skerta starfsgetu að vera gestastarfsmenn fyrirtækisins í einn dag.  Með heimsókn sinni til fyrirtækjanna fá  gestastarfsmenn innsýn í fjölbreytt störf og starfsmenn fyrirtækja kynnast styrkleikum atvinnuleitenda með skerta starfsgetu. Jafnframt eiga viðkomandi samtal um möguleika vinnustaðarins til að móta verklag sitt svo starfsmenn með sérþarfir geti stundað þar vinnu.

Áhersla Fyrirmyndardagsins í ár eru fyrirtæki í sjávarútvegi og störfum honum tengdum. Allar þjónustuskrifstofur Vinnumálastofnunar á landinu taka þátt í deginum í samstarfi við fyrirtæki og aðila á sínu svæði. Í Hafnarfirði er Vinnumálastofnun í góðu samstarfi við Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar og fyrirtæki í bænum. Þessi fyrirtæki eru Ópal Sjávarfang, Ísfell, Von Mathús og Sætoppur. Fyrirtækin tóku afskaplega vel í að taka þátt í Fyrirmyndardeginum og færir Vinnumálastofnun þeim bestu þakkir fyrir.

 

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar