Nokkrir nemendur skáru sig úr í námsárangri við úrskrift úr Flensborg fyrir skömmu. Níu þeirra voru með 9,0 í meðaleinkunn eða hærra. Dúx af fjögurra ára braut var Daníel Einar Hauksson, sem lauk stúdentsprófi með 9,94 í meðaleinkunn og setti því nýtt skólamet, hæstu stúdentseinkunn sem gefin hefur verið við skólann. 

Ásamt Magnúsi skólameistara.

Daníel Einar útskrifaðist af náttúrufræðibraut sem miðast við fjögurra ára nám. Í nýja þriggja ára kerfinu heitir sambærileg braut raunvísindabraut. Spurður um uppáhaldsfögin segir hann það hafa verið eðlisfræði og stærðfræði. Daníel Einar er beðinn um að lýsa kostum sínum. „Ég er áhugasamur og metnaðarfullur og pæli mikið í hlutum. Ég reyni að skilja þá sem best og átta mig á samhenginu milli þeirra. Svo er ég góður í almennri rökhugsun.“ Daníel Einar ætlar í nám í Háskóla Íslands í haust en er ekki alveg búinn að ákveða hvort hann fer í verkfræði eða eðlisfræði. Hann á eina systur, Katrínu, sem er tveimur árum yngri en hann og hún er líka í Flensborg. Aðspurður segist Daníel Einar því miður ekki hafa hugmynd enn um hvað hann langar að starfa við í framtíðinni. „En ég er nokkuð viss um það mun tengjast raungreinum. Ég æfi líka frjálsar íþróttir með FH, er hlaupari og keppi mest í millivegalengdarhlaupum.“

 

Mynd/OBÞ