Benedikt Grétarsson er fluttur aftur í Fjörðinn fagra eftir nokkurra ára fjarveru og býr þar ásamt konu sinni og tveimur börnum. Benedikt er mikill íþróttaáhugamaður enda starfar hann sem íþróttafréttamaður. Nú þegar líður að aðventunni þótti okkur tilvalið að heyra í Benedikt og forvitnast um hvernig jólaundirbúningnum er háttað hjá honum og fjölskyldu hans.

 1. Nafn: Benedikt Grétarsson
 2. Búseta: Hrauntunga 26, Hafnarfirði
 3. Fjölskylduhagir: Ein prýðileg kona og tvö indæl börn
 4. Ertu jólabarn? Hefðir þú spurt mig fyrir 25-30 árum, hefði ég gefið sjálfum mér 9,5 í jólabarna-einkunn. Núna er ég í 7,5. Ég vonast samt til að komast aftur í ágætiseinkunn þarna.
 5. Uppáhalds jólalag? Fairytale of New York.
 6. Uppáhalds jólamynd? Verð að setja Love actually þarna. Við horfum yfirleitt á hana um hver einustu jól.
 7. Hvenær byrjarðu að hlusta á jólalög? Eins seint og mögulegt er. Reyni að sneiða framhjá þessu fram í miðjan desember.
 8. Hvenær byrjarðu að undirbúa jólin? Byrjaður að hugsa um að vera tímalega yfirleitt í september en enda svo með allt lóðrétt niður um mig 11:35 á aðfangadag í Hagkaup.
 9. Seturðu þér markmið um hvað þú ætlar að eyða miklu í jólagjafir fyrir hver jól? Nei, slík markmiðasetning er dæmd til að mistakast.
 10. Verslarðu jólagjafir á netinu? Já, það hefur komið fyrir.
 11. Ferðu á jólatónleika? Annað hvert ár hefur verið trendið hjá mér.
 12. Borðarðu skötu á Þorláksmessu? Reyni að forðast skemmdan mat ef ég get.
 13. Hvað er í matinn á aðfangadagskvöld? Við höfum verið lítið í hefðum á mínu heimili. Við höfum verið með nautalund, lamb, Wellington, svínalund o.fl. Prófuðum loks hamborgarhrygg í fyrra og viti menn, börnin borðuðu hann! Líklegt að gölturinn rati því aftur á borðið í ár.
 14. Hvað langar þig í í jólagjöf? Bara þetta klassíska: frið á jörð, ást og umhyggju. Ef þessir hlutir eru búnir, þá þigg ég nýtt golfsett.

 

Liðurinn Aðventan mín.

Texti: Ágústa Arna

Mynd: Olga Björt