Golfstraumurinn er flottur. Hann er í raun lífgjafi Íslands. Án hans væri vart byggilegt hér. Hann á upptök sín skammt norðan við miðbaug, í Mexíkóflóa (Gulf of Mexico), en þaðan er nafnið komið. Einn angi hans streymir alla leið hingað norður til Íslands sem er á 63°-66° norðlægrar breiddar. Þessi hlýi hafstraumur kemur að suðurströndinni og heldur áfram norður með vesturströndinni. Þannig tryggir hann okkur mildara loftslag en víða á sömu breiddargráðu. Gott hjá honum!

Svo er það hinn golfstraumurinn. Sá sem streymir frá Íslandi til suðurs, aðallega á vorin og haustin. Þetta er stöðugt stækkandi straumur golfara sem annaðhvort getur ekki beðið eftir sumrinu eða vill lengja það í hinn endann. Þeir skella sér þvi til suðlægari landa til að iðka íþrótt sína í mildara veðri og góðra vina hópi. Frábært, ekki síst fyrir heilsuna því hreyfingin er góð og kylfingar eru sagðir lifa lengur en aðrir. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Á Hvaleyrinni hér í Hafnarfirði er að finna einn besta golfvöll landsins. Hrafna-Flóki, sá sem gaf Íslandi nafn, gaf Hvaleyrinni reyndar líka nafn. Hann fann þar nefnilega rekinn hval  þegar hann sigldi inn fjörðinn í leit að Herjólfi félaga sínum. Þetta var fyrir um 1150 árum. Núna er 2017, sumarið fer í hönd og hafnfirski golfstraumurinn fer að stefna á Hvaleyrina. Golfarar á mismunandi aldri og getustigi bíða með tilhlökkun eftir að takast á við ögranir sumarsins, hvort sem það verður í stuttbuxum eða 66°-gallanum. En úti fyrir Hvaleyrinni mun hinn eiginlegi Golfstraumur senda úr suðri hlýjan blæ, eins og Páll Ólafsson segir í Sumarkveðju sinni, og blessuð sólin verður vonandi jafn áfjáð í að heimsækja okkur í sumar eins og erlendu ferðamennirnir.

Gleðilegt sumar.