Alþjóðlega verkefnið Göngum í skólann var sett í Víðistaðaskóla í dag. Hrönn Bergþórsdóttir skólastjóri bauð gesti velkomna og Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ flutti stutt ávarp og stýrði dagskrá. Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og Rósa Guðbjartsdóttir, formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar, tóku einnig til máls. Nemendur úr 3. bekk fluttu tónlistaratriði fyrir gesti og svo var tekin létt ganga umhvefis Víðistaðatún í blíðunni.

Aðstandendur verkefnisins og þau sem tóku til máls, aðrir gestir, starfsfólk og nemendur Víðistaðaskóla settu Göngum í skólann með viðeigandi hætti með því að ganga verkefnið af stað. Meginmarkmið með átakinu er að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla. Um leið er ætlunin að hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar. Einnig að kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli, draga úr umferð við skóla, draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum.

Umhverfið metið fyrir vegfarendur

Ávinningurinn verður einnig hreinna loft ásamt öruggari og friðsælli götum og hverfi, auk þess sem stuðlað er að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál. Skoðað er hversu „gönguvænt“ hvert umhverfið er fyrir sig og hvar úrbóta er þörf. Einnig er hvatt til heilbrigðs lífsstíls fyrir alla fjölskylduna, því hreyfing vinnur eins og við vitum gegn hjartasjúkdómum, offitu og sykursýki II og stuðlar að streitulosun, betri sjálfsmynd, o.fl.

Ísland með í 11. skipti

Í ár tekur Ísland þátt í 11. skipti, en það hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttaka stöðugt farið vaxandi. Hér á landi fer skráning skóla mjög vel af stað og enn geta skólar bæst í hópinn. Á alþjóðavísu er Göngum í skólann mánuðurinn í október og alþjóðlegi dagurinn er 4. október n.k. Vegna birtu og veðuraðstæðna fer verkefnið fram hér á Íslandi í septembermánuði lýkur 4. október. Þeir sem að verkefninu standa hérlendis eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Landssamtökin Heimili og skóli.

Fjarðarpósturinn var á staðnum og tók meðfylgjandi myndir.