Fyrirtækið Rekstrarumsjón var stofnað í maí og er það er nátengt öðru hafnfirsku fyrirtæki, GS múverk, sem hefur verið í byggingarbransanum síðan árið 1991. Þetta er fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar í nær öllum Kraganum. Rekstrarumsjón hélt opnunarteiti í liðinni viku að Dalshrauni 11 (við hliðina á Slippfélaginu) og þar spjölluðum við við eigandann, Helgu Soffíu Guðjónsdóttur.

„Foreldrar mínir, Guðjón Snæbjörnsson og Soffía Björnsdóttir, eiga fyrirtækið GS múrverk og við vildum búa til aðeins meira fjölskyldufyritæki og víkka það út í húsfélagaþjónustu. Við erum að sinna húsfélögum og einnig ýmsu tengdu útleigu fasteigna til einstaklinga og lögaðila. Við höfum reynslu í því,“ segir Helga og tekur fram að það sem hún telur þau hafa fram yfir önnur fyrirtæki á þessum markaði sé að hafa einmitt byggingafyrirtæki foreldra hennar á hliðarlínunni. „Ef húsfélög fara í framkvæmdir þá erum við með aðila sem við getum sent beint í stað þess milligöngu annarra verktaka.“

Helga og Bjartmar Steinn Guðjónsson, mágur hennar, sem einnig starfar hjá fyrirtækinu. 

Þrjár rekstrarleiðir

Til að byrja með segir Helga að einblínt verði á húsfélagsþjónustuna, en þar verði þrjár rekstrarleiðir í boði og fari þjónustan eftir hversu mikla þjónustuþörf húsfélög hafi hverju sinni. Fjármál og innheimta, aðalfundir og öllu sem þeim fylgii og svo sé hægt að fá þjónustu við nánast allt frá garðslætti, gluggaþvotti upp í tilboð í tryggingar, útboð í framkvæmdir og allt sem viðkemur slíkum rekstri. „Þetta er stór markaður, það er hraði í samfélaginu og íbúðablokkir eru orðnar fjölmennar. Svona þjónusta léttir á hússtjórn og auðveldar verkin. Þetta er fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar í Hafnafirði, Kópavogi og Garðabæ. Við erum systkini og foreldrar úr Hafnfirði og leggjum áherslu á hafnfirska þjónustu. Höfum mjög gott og traust tengslanet sem um að gera að nýta,“ segir Helga.

 

Myndir: Olga Björt