Í síðustu viku lét ég af störfum á leikskólanum Hvammi, hvar ég hafði starfað með hléum í fjögur ár. Ég kveð þennan vinnustað með söknuði og trega. Ég er svo þakklátur fyrir að hafa kynnst þessu yndislega starfi og fengið að vinna með litlu krílunum. Það eru algjör forréttindi. Ég mæli með þessu starfi fyrir alla, sérstaklega karlmenn. Það er svo mikilvægt fyrir samfélagið okkar og jafnréttisbaráttuna að börn fái fyrirmyndir af öllum kynjum.

Starfsfólk leikskóla er að mínu mati mikilvægasta fólkið í íslensku samfélagi. Það er sömuleiðis það vanmetnasta. Þetta endurspeglast í launum þeirra, en samkvæmt kjarasamningi Félags leikskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga eru byrjunarlaun leikskólakennara með 5 ára háskólanám 465 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt. Miðað við lengd kennaranámsins og ábyrgðina sem starfinu fygir eru þessi laun allt of lág og allir sem hafa kynnst því magnaða starfi sem fram fer á leikskólum vita að þessi stétt á betra skilið.

Leikskólar landsins eru langt frá því að ná því viðmiði að ⅔ starfsfólks sé fagmenntað. Mikil mannekla er sömuleiðis í grunnskólum og á frístundaheimilum og starfinu í þessum mikilvægu stofnunum er að stórum hluta haldið uppi af ófaglærðu starfsfólki á enn verri launum en kennararnir. Við verðum, sem samfélag, að meta fólkið sem vinnur með börnunum okkar að verðleikum. Það þarf að vera eftirsótt að vinna þessi störf. Til þess þarf m.a. hærri laun og hugarfarsbreytingu.

Það mikilvægasta sem við getum gert í þessu lífi er að vera góð við börn. Það skiptir máli upp á hvernig samfélag við viljum sjá í framtíðinni. En við þurfum líka að vera góð við fólkið sem vinnur með börnunum og láta laun þess endurspegla þá ábyrgð sem starfinu fylgir og þá virðingu sem við berum fyrir því. Fyrir því mun ég berjast alla tíð.

Óskar Steinn Ómarsson, ritari Samfylkingarinnar