Hafnarfjörður er með fæstar íbúðir í byggingu í samanburði við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu utan Seltjarnarness. Í talningu sem Samtök iðnaðarins gerðu sl haust um íbúðir í byggingu kemur í ljós að Hafnarfjörður var með 170 íbúðir í byggingu, var Reykjavík með 1509, Kópavogur með 900, Garðabær með 607 og Mosfellsbær með 513 íbúðir. Þetta er sláandi munur sem helgast bæði af því að skortur er á lóðum undir fjölbýlishús í bænum auk þess að skipulagsskilmálar á byggingalóðum eru frámunalega þröngir. Forræðishyggjan gengur svo langt á lóðum í Skarðshlíðinni að í skipulagsskilmálum er fyrirskipað hvernig hús skulu vera á litinn.

Eða svo gripið sé niður í skipulagsskilmála fyrir Skarðshlíð 1. áfanga: Yfirborðsfrágangur fjöleignarhúss F2 skal vera múr, sléttpússaður og málaður í bláu eða slétt læst lóðrétt zink eða ál klæðning í Ral-7011 [sem er blágrár litur] eða sambærilegum lit” ennfremur “Yfirborðsfrágangur fjöleignarhúss F5 skal vera með tré eða steinað í gulbrúnni steiningu”. Þá segir “Þak og þakrennur skulu vera innan byggingarforms en ef þakrennur og þakniðurföll eru sýnileg skal taka úrtak úr vegg og fella þannig rennu inn. Einnig skal þá notast við annað efni en plast”. Þetta eru aðeins dæmi. Afleiðingin er að  lóðum hefur verið skilað, íbúðirnar dýrar í byggingu sem aftur hefur leitt til þess að fá verktakafyrirtæki hafa haft áhuga á lóðunum. Staðan nú er hins vegar sú að bærinn á enga lausa lóð undir fjölbýlishús. Svona vill Miðflokkurinn í Hafnarfirði ekki hafa hlutina. X-M fyrir upphaf nýrra tíma.

Myndatexti: Heimild Samtök Iðnaðarins

Sigurður Þ. Ragnarsson

Höfundur skipar 1. sæti á lista Miðflokksins í Hafnarfirði.