Lesendum Fjarðarpóstsins stóð til boða að tilnefna Hafnfirðing ársins fram að miðnætti á Þorláksmessu. Tilnefnd að þessu sinni eru átta manns og eru nöfn þeirra hér í stafrófsröð, ásamt ástæðum tilnefninga: 

 

Anna Björg Sigurbjörnsdóttir, samskiptafulltrúi Hrafnistu í Hafnarfirði.

„Hún er einstaklega hjálpsöm, góð, setur alla aðra alltaf í forgang, er með stæsta hjarta sem ég veit um, gefur af sér til félags- og líknarmála, hefur starfað síðustu ár sem samskiptafulltrúi á Hrafnistu í Hafnarfirði og komið m.a. að starfi Heimilisiðnaðarfélagsins. Hún er mörgum vel kunnug innan Hafnarfjarðar enda verið búsett þar alla sína ævi. Hún ætti virkilega þennan heiður skilið og vona ég að aðrir Hafnfirðingar deili þeirri skoðun með mér.“

 

Björk Jakbosdóttir, leikkona, leikstjóri og leiðbeinandi.

„Björk er ein af stofnendum leikhússins Hermóðs og Háðvarar (1994) og síðar Gaflaraleikhússins (2011) þar sem hún hefur starfað ötullega síðan. Hún hefur sett upp ótal leiklistarnámskeið fyrir börn og unglinga í Hafnarfirði og víðar, ásamt því að setja upp leikrit með þeim. Það hefur aukið færni þeirra til að koma fram, vinna með öðrum og fá aukið sjálfstraust. Hún hefur samið nýjar leikgerðir og leikrit auk þess að leikstýra ótal sýningum. Hún hefur unnið mikilsvert uppfræðslustarf í skólum, oft að eigin frumkvæði, m.a. með leikfélagi Flensborgarskóla auk söngleikja og sýninga fyrir ýmsa aðra skóla. Björk hefur ávallt verið tilbúin að koma til eldri borgara í Hafnarfirði með brot úr leikstykkjum, þegar eftir því hefur verið leitað, án endurgjalds.“

 

DAS-bandið, hljómsveit Hrafnistu í Hafnarfirði. 

„Alla föstudaga koma saman á Hrafnistu u.þ.b. 10 eldri borgarar og spilar fyrir yndislega gamla fólkið okkar. Hljómsveitarmeðlimir koma alls staðar að allt árið um kring í öllum veðrum og vindum með sín þungu hljóðfæri og fá aldrei krónu fyrir. Einu launin eru kaffibolli og bros frá gamla fólkinu.“

 

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari.

„Fyrir faglega frammistöðu í erfiðum sakamálum á árinu, sérstaklega í máli Birnu Brjánsdóttur.“

 

 

Linda Björk Hilmarsdóttir og Jón Þórðarson, eigendur HRESS.

„Það sem að þau hafa gert fyrir fólk í Hafnarfirði með árlegum Hressleikum. Það sem að þau hafa gert til að létta undir hjá fjölskyldum sem eiga það erfitt með Hressleikunum er að ég tel ómetanlegt og endalaust fallegt. Umhyggjan fyrir náunganum skín í gegn með því sem að þau gera.“

 

Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar.

„Alveg einstaklega óeigingjarnt starf einstakra sjálfboðaliða. Þær verja ekki bara miklum tíma í að koma mat og öðrum nauðsynjum til í hendur þeim sem minna mega sín, utan síns vinnutíma, heldur hefur Mæðrastyrksnefnd einhvern veginn aldrei tryggan samastað í húsnæði á milli ára.“

 

Villikettir – dýraverndunarfélag.

„Þær eru búnar að bjarga mörghundruð köttum úr hörmulegum aðstæðum. Við erum að tala um að kisurnar fá allar nöfn hjá þeim og það sést svo vel í Snappinu þeirra hversu vel er hlúð að þeim og það er yndislegt að sjá elsku dýrin ná þar bata, bæði líkamlega og andlega.“

„Ótrúlega flott starf i gangi þarna! Ég elska snöppin þeirra!“

 

Örvar Þór Guðmundsson hjá Samferða, góðgerðarsamtökum. 

„Örvar hefur nú í nokkur ár staðið fyrir söfnun fyrir jólin fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda.“

„Örvar er bara venjulegur þriggja barna faðir í Hafnarfirði hefur í 5 ár látið gott af sér leiða með því að safna fé til styrktar fjölskyldum og einstaklingum sem eiga um sárt að binda. Hvílíkt hjarta í einum manni.“