Vinnumálastofnun stóð fyrir árlegum Fyrirmyndardegi sl. föstudag og er dagurinn mikilvægur liður í því að auka möguleika fólks með skerta starfsgetu í fjölbreyttari atvinnuþátttöku. Áhersla Fyrirmyndardagsins í ár voru fyrirtæki í sjávarútvegi og störf honum tengd. Í Hafnarfirði fengu m.a. fyrirtækin Ópal Sjávarfang ehf. og Von mathús lærlinga og Fjarðarpósturinn kíkti við.

Linda Hannesdóttir og Birgir Sævar Jóhannsson, eigendur Ópal Sjávarfangs. 

Mikilvægt að prófa eitthvað nýtt

Linda Rós Hilma Pedersen fór í starfskynningu hjá Lindu Hannesdóttur og Birgi Sævari Jóhannssyni í Ópal Sjávarfangi ehf. þar sem hún raðaði ilmandi nýreyktri bleikju í lög á spjald með plasti á milli og plasti utan um. Síðan var pakkningin lofttæmd og áætluð á markað í Frakklandi núna í vikunni.

„Það er mjög gaman að sjá hvernig þetta virkar. Ég er mjög hrifin af reyktum fiski. Það er svo margt sem ég læri hérna og ég gæti alveg hugsað mér að vinna við þetta öðru hverju. Það er líka mikilvægt fyrir mig að fá að prófa eitthvað nýtt og sem fjölbreyttast. Ég er dálítið týnd og er að finna mína stefnu. Því er gott að fá svona tækifæri til að skoða mig um, “ segir Linda Rós, starfsmaður í þjálfun.

„Við erum reykhús, aðallega með lax en einnig fleiri tegundir. Stofnuðum fyrirtækið árið 2005 og hér starfa alls fjórtán manns. Það er fyrst og fremst gaman að taka þátt í svona samfélagslegu verkefni og við gætum alveg hugsað okkur að ráða manneskju í starf í kjöfarið,“ segir Linda Hermannsdóttir, eigandi.

Eigendur Von mathúss, Kristjana Þura Bergþórsdóttir og Einar Hjaltason.

Dugleg að spyrja

Kristjana Þura Bergþórsdóttir og Einar Hjaltason, eigendur Von mathúss hafa rekið það í tvö ár og fengið feykigóð viðbrögð frá bæjarbúum og einnig koma aðrir víða að. Þau fengu Guðbjörgu Láru Viðarsdóttur sem aðstoðarkonu við undirbúning í eldhúsinu. Kristjana þura segir að Von mathús geti vel hugsað sér að ráða einstakling í hlutastarf. „Við reynum af fremsta megni að taka þátt í öllu samfélagslegu sem við getum. Gaman fyrir strákana að fá einhvern nýjan í eldhúsið sem spyr nýrra spurninga. Hún hefur einmitt verið svo dugleg að spyrja,“ segir Kristjana Þura, en sex manns eru í fullu starfi á veitingahúsinu og allir ganga í öll störf, utan matreiðslunnar sjálfrar, allt frá undirbúningi í frágang og skúringar.

Guðbjörgu Láru leist mjög vel á og fannst gaman að prófa etthvað nýtt. „Ég var að taka í sundur grænkál og skera köku niður og setja í box. Þetta er mjög fínn staður og ég hafði oft séð hann utan frá áður. Það skiptir máli fyrir fólk sem er aðeins eftir að sjá hvað það getur gert. Ég gæti vel hugsað mér að vinna á veitingahúsi ef verkefnin eru ekki of flókin.“

 

Myndir: Olga Björt.