Við Hafnfirðingar eigum okkur orð sem enginn annar notar eins og „i“ sem  sem hefur svipað margar merkingar og „jæja“. Rambelta eða gæluheitið ramba er óvíða notað nema hér, önnur bæjarfélög nota orðskrípi eins og vegasalt þar sem þau ættu frekar að tala um vog. Hér er vegasalt borið á götur til að forðast hálku og þykir ekki frambærilegt barnagull.

Ég man í svipinn ekki eftir öðru bæjarfélagi sem þurfti að byrgja bankann sinn á þrettándanum vegna þeirrar hefðar að sprengja hann ár eftir ár. Ruslatunnur miðbæjarins rúlluðu logandi niður Linnetstíginn eins og eldhnettir en þegar ég var að nálgast unglingsárin var löggan búin að loka miðbænum og hleypti einungis íbúum í gegnum víggirðinguna.

Þónokkrir kvistir á lífsins tré prýða bekki bæjarins og koma sér svo fyrir með kaffibolla til að ræða heimsmálin inni í Firði þegar veður er vont. Þessum snillingum er tekið fagnandi í bænum öfugt við nærliggjandi sveitarfélög.

Hafnarfjörður kom til álita sem höfuðborg Íslands en samgöngur þóttu slæmar og mótekja léleg. Enda eru pólitíkusarnir okkar nógu kjaftforir svo við förum ekki að fela þeim landsmálin.

En eitt vantar okkur.

Til eru alls kyns mílur. Þær sem við notum hvað mest eru sjómílan, ca. 1,8km og landmílan ca. 1,6km. Skandinavarnir áttu hver sína mílu sú norska 11,3km sú sænska 10,7 og Daninn átti þá sjálensku 11,1km og brúkaði einnig þá prússnesku sem var ca. 7,5km. Okkur Íslendingum bar aldrei gæfa til að eignast okkar eigin mílu og legg ég því til að við Hafnfirðingar tökum upp okkar eigin. Skal hún miðast við vegalengdina milli Fjörukráarinnar og A.Hansen sem er 600 metrar. Hálf míla væri þá vegalendin milli þessara vertshúsa og yfir í Fjörð. Kvartmíla er frá Súfistanum yfir á A.Hansen. Mótmælendur gegn tillögu þessari verða tjargaðir, fiðraðir og fluttir nauðugir viljugir til refsivistar í Garðabæ.