Heimurinn getur verið ansi lítill, a.m.k. í tilfelli Hafnfirðinganna Örnu Bjarkar Sveinsdóttur og Heiðars Loga Elíassonar, sem kynntust á ævintýralegan hátt. Hún var áður fyrr í óróakenndri leit að sjálfri sér og hann með ADHD greiningu og á rítalíni í 10 ár. Núna aðstoða þau fólk við að ná innri frið og líkamlegum styrk með fræðum Ashtanga jóga.

Arna Björk er fyrsti Íslendingurinn til að hljóta annars stigs kennsluréttindi í Ashtanga Yoga frá KPJAYI Mysore á Indlandi. Það getur tekið mörg ár eða áratugi að fá slíka viðurkenningu. Hún segist hafa verið mjög leitandi unglingur, djammaði mikið og reykti. Var mjög pólítískur femínisti, jafnréttisfulltrúi ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði og ætlaði helst að verða fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Íslands. „Bróðir mömmu dró mig svo í jógatíma fyrir nokkrum árum til Ingibjargar Stefánsdóttur í Yoga Shala í Reykjavík. Síðan leiddi eitt af öðru og ég byrjaði ad kenna hjá henni af og til. Í framhaldinu fann ég bara köllun mína og ég er þakklát Ingibjörgu fyrir ad hafa veitt mér tækifæri og innblástur.“

Í kjölfarið hefur Arna Björk í sjálfboðavinnu kennt fórnarlömbum mansals og vændis á Indlandi að lesa og skrifa ensku, sem og jóga. „Þetta var mjög mikil lífsreynsla og lærdómsríkt að fá að vinna med ungum stúlkum og konum sem hafa að baki þessa hræðilegu lífsreynslu. Fyrst og fremst vil ég fá að hjálpa fólki ad hjálpa sér sjálft og nota til þess jóga,“ segir Arna Björk.

Hreyfingin róar hugann

Heiðar Logi segist snemma hafa verið greindur mjög ofvirkur, með ADHD og mikla hvatvísi. „Það stjórnaði allri æsku minni og unglingsárum og ég var á stórum skammti af rítalíni frá 6 til 16 ára aldurs. Þegar ég kynntist snjóbrettaíþróttinni 12 ára fór allt smám saman að mjakast í rétta átt. Ef ég hreyfi mig og næ orkunni út þá finn ég ró innra með mér.“

Næst tók við brimbrettaíþróttin og Heiðar Logi stundaði hana stíft frá 15-18 ára. „Íþróttir sem ég get keyrt mig út í er það er það sem ég þarf. Ég verð einbeittur þegar ég nota líkamann.“ Erlendir félagar Heiðars Loga hvöttu hann til að prófa jóga með öðrum íþróttum og hann fann sig þar. „Það tekur mig reyndar langan tíma að bæta einhverju inn í líf mitt sem rútínu. Ég var 19 ára þegar ég hætti að drekka, 20 ára þegar ég hætti að taka í vörina og 21 þegar ég tók mataræðið í gegn. Þá gat ég bætt betri hlutum inn í líf mig og jóga varð viðbót við „surfið“, sem eru atvinna mín.“

Þarna líður okkar manni einna best, í íslenskum vetraröldugangi. Mynd: Guðný Ág.

Ísþjóðin og Facebook skilaboð

Arna Björk og Heiðar Logi segjast bæði vera hálfgerðir sígaunar í sér; staldri ekki lengi við á hverjum stað og vilji helst ekki vera bundin neinu. Hún er með lögheimili í Danmörku og hann býr hjá fjölskyldu sinni Fossvoginum. Hvernig náði fólk á ferð og flugi að frétta hvort af öðru?

„Það er skemmtileg saga,“ segir Heiðar Logi skælbrosandi. „Ég var í Nepal að læra jóga fyrr á þessu ári. Ég og danskur vinur mínum vorum að ræða Ashtanga jóga og velta fyrir okkur hverjir væru með réttindi til að kenna. Það er til erlend síða (www.kpjayi.org) sem skráir alla sem eru með réttindi og ég sagðist telja að enginn Íslendingur væri með þau. Vinur minn vissi þá af Örnu Björk eftir að hann var nemandi hennar.“ Sama dag og Heiðar Logi var að spá í þetta allt sá Arna Björk þáttinn Ísþjóðin á RÚV, sem tekinn var upp á Öxl á Snæfellsnesi. Heiðar Logi var efni þáttarins. Hún heillaðist af staðnum og því sem Heiðar Logi hafði fram að færa og sendi honum Facebook skilaboð.

Spilað á indverska harmóniku undir lok jógatíma. 

„Þá var ég úti að borða með danska vininum mínum. Við horfðum hvor á annan og skellihlógum og sendum henni mynd af okkur saman. Eftir það ræddum við Arna Björk meira saman og það var svo bara eins og að við hefðum alltaf þekkst.“ „Við trúum ekki á tilviljanir,“ bætir Arna Björk við og segir að hana hafi alltaf langað að finna góðan og heilandi stað fyrir jógakennslu á Íslandi. Öxl á Snæfellsnesi sé tilvalin til þess og þau séu að vinna að því að undirbúa það ásamt öðrum Hafnfirðingi, Agli Birni Bjarnasyni „teknó-bónda“ sem þar hefur búið til nokkurs konar andlegt samfélag.

Hugarfar og líkamsminni

Heiðar Logi segir að þegar hann fái hugmynd og tali um hana við vini sína, þá einfaldlega gerist bara eitthvað. Arna Björk bætir þá við að hún hefði líklega aldrei farið út í einhverja svona hluti með einhverjum öðrum sem hún hefur þekkt í svona skamman tíma. „Þetta jóga er ekki fyrir þá sem eru latir og áhugalausir. Það þarf sjálfsaga og gera það að ákveðnum lífsstíl.“

Frá jógakennslu þeirra í ágúst. Heiðar Logi segir að flestir eigi að geta staðið á höndum.  Mynd: Arna Björk. 

Fullorðinsfimleikar

En eru þá jóganámskeiðin hjá þeim fyrir alla, þar sem er staðið á höndum og haus og alls kyns æfingar? Heiðar Logi segir flesta hafa þann styrk að geta staðið á höndum. „Þetta snýst um hugarfarið, líkamsminni, æfingu og tækni. Þetta eru eiginlega fullorðinsfimleikar að hluta til og fólki finnst það svaka fjör. Ákveðnir vöðvar eru virkjaðir, s.s. við að planka, skríða og fara í handahlaup. Það gefur nemendum okkar styrk og þeir takast á við óttann við æfingarnar en láta hann ekki koma í veg fyrir að ná árangri. Það er hluti af Ashtanga jóga.“

Er að venjast „snöppunum“

Að lokum eru jógagúrúin spurð út í, verandi mjög ólík að eðlisfari, hvort þau hafi ekki kennt hvort öðru sitthvað í samvinnunni. „Jú, algjörlega. Hún er með svo mikla þekkingu, reynslu og færni í þessu til margra ára. Þegar það er til staðar er svo auðvelt að spinna æfingar og prógramm,“ segir Heiðar Logi. Arna Björk tekur undir þetta og bætir við: „Það eru einhverjir Hafnfirskir álfar í okkur sem tengir okkur saman. Heiðar Logi er mjög virkur og opinn, duglegur að prófa nýja hluti og með mikla líkams- og hreyfigreind. Svo er ég smám saman að venjast öllu þessu Snapchat-i hjá honum,“ segir hún og hlær.

 

Mynd af Heiðari ungum er í hans eigu. 

Aðrar jógamyndir eru frá Örnu Björk. 

Forsíðumynd: Olga Björt.