Ég var að taka til í blaðabunka hjá mér nýverið og rakst á dreifimiða sem borist hafði inn um bréfalúguna hjá mér en dreifimiðinn hafði farið fram hjá mér þegar hann barst.

Dreifimiðinn

Dreifimiðinn er ekki undirritaður af neinum sérstökum aðila en þar er bent á frekari upplýsingar á; sudurbakki.is / facebook.com/ekkihahysi. Frekar innihaldsrýrt efni sem þar er að finna fyrir utan samantekt og kynningarefni á því hvernig menn eigi að mótmæla.  Eftir því sem ég best veit er þessum netsíðum haldið úti af mjög fáum aðilum hér í bæ sem finna því allt til foráttu að reisa eigi húsnæði fyrir Hafrannsóknarstofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, á hafnarsvæði Hafnarfjarðarbæjar.  Í daglegu tali kölluð Hafró.

Að agnúast

Ég verð að viðurkenna að ég fæ ekki skilið hvers vegna verið er að agnúast út í fyrirhuguð hús sem ekki eru fyrir einum eða neinum og ekki skyggja á eitt eða neitt. Bygging húsanna gerir kleift að Hafró flytjist í Hafnarfjörð með alla sína starfsemi og sín skip, en hjá Hafró starfa um 200 manns. Í þessu samhengi er kannski rétt að minna á að undanfarin ár hefur opinberum stofnunum farið fækkandi hér í bæ.  Sumar beinlínis verið fluttar nauðaflutningum burt úr bænum svo sem Fiskistofa og fógeti.  Áhrifin af flutningi stofnana úr bænum eru gríðarleg fyrir bæjarfélagið, bæjarlífið, bæjarbúa og atvinnumöguleika bæjarbúa.  Miklu meiri áhrif en bæjarbúar almennt gera sér grein fyrir, að ég held, því hvert og eitt starf sem flyst úr bænum þýðir að afleidd störf hverfa líka.  Þó ekki væri nema vegna þessarar óheillavænlegu þróunar fyrir bæjarfélagið mundi maður halda að flutningi Hafró til Hafnarfjarðar væri vel fagnað af öllum bæjarbúum.  En svo virðist víst ekki vera.  Nú er svo komið að þessi fámenni hópur sem mótmælir heldur einu mesta framfaramáli Hafnafjarðarbæjar og bæjarbúa hin síðari ár í heljargreipum.  Kjósi frekar að gera framtíð bæjarins og bæjarbúa að einhverskonar æfingabúðum í lögfræði með endalausum kærumálum.

Hafró

Það að takast að fá Hafró til að flytja alla sína starfsemi hingað í Hafnarfjörð er ekki lítið afrek.  Feikiduglegum heimamönnum tókst með harðfylgni að sannfæra Hafró og ráðherra um að besta staðsetningin fyrir stofnun eins og Hafró væri Hafnarfjörður.  Mundi ég halda að það væri mikill heiður fyrir Hafnarfjörð að fá rannsóknarstofnun eins og Hafró, með sína 200 starfsmenn, flutta í bæinn.  Flutningur Hafró hingað mun einnig styrkja Hafnarfjarðarhöfn því rannsóknarskip Hafró fá lægi í höfninni.  Tilkoma Hafró gerir það kleyft að í Hafnarfjörðinn flytjist enn fleiri fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi svo sem fyrirtæki tengd sjávarklasa og þekkingarfyrirtæki í sjávarútvegi.  Með þeim koma einnig enn fleiri atvinnumöguleikar fyrir bæjarbúa inn í bæinn. Öllum þessum ávinningi fyrir bæjarbúa er stefnt í stórkostlega hættu vegna þrákelkni örfárra.  Mikil hætta er á því að Hafró hætti við flutninginn hingað, nenni ekki að standa í þessu veseni sem hér er í gangi.

Háhýsi – hvað er háhýsi?

Þá er komið að fyrirsögn þessarar blaðagreinar.  Háhýsi – hvað er háhýsi?  Háværustu gagnrýnisraddir á þessi fallega hönnuðu hús virðist fyrst of fremst snúa að nýrri skilgreiningu á orðinu háhýsi.  Þeir hinir sömu vilja halda því fram að 5 hæða hús sé „háhýsi“.  Ég hef aldrei heyrt það áður og er nokkuð viss um að enginn hefur heyrt þetta áður, að 5 hæða hús sé háhýsi.  Háhýsi eru hús eins og maður sér á Manhattan í New York, í City í London, í miðborg Frankfurt og Borgartúninu í Reykjavík.  Sjálfur bý ég í þriggja hæða húsi og enginn hefur sagt við mig að ég búi „næstum því í háhýsi“!

 

Höfundurinn er íbúi í Hafnarfirði

og stjórnarmaður í hafnarstjórn