Það fer ekki framhjá neinum sem heimsækir fimleikafélagið Björk á þriðjudags eftirmiðdegi að æfingaaðstaða hjá félaginu er löngu sprungin. Aðstaða og húsnæði félagsins hefur ekki fylgt þeirri miklu aukningu iðkenda sem hefur verið í öllum deildum og hefur í þó nokkur misseri verið milli tvö og þrjú hundruð börn á biðlista hjá félaginu.

Hjá félaginu er starfandi fimleikadeild, klifurdeild, taekwondodeild, almenningsdeild ásamt félagadeild og ef skoðaðar eru tölur yfir iðkendur sem eru 12 ára og yngri þá er félagið stærst íþróttafélaga í Hafnarfirði þ.e. með flesta iðkendur 12 ára og yngri.

Aðstöðuleysi félagsins mun hefta frekari uppbyggingu og eðlilega framþróun. Áhugavert hefur verið að fylgjast með framþróun í nágrannasveitarfélögum þar sem myndarlega hefur verið staðið að uppbyggingu og framgangi sambærilegra félaga. Til að mynda er enginn sérhæfð aðstaða fyrir hópfimleika að Haukahrauni heldur er notast við sal sem upphaflega var byggður fyrir atvinnustarfsemi enda heyrist oft þegar Hafnfirðingar sem voru við íþróttaiðkun í salnum á 8. áratug síðustu aldar: „Hér hefur ekkert breyst frá því að ég var hér sem barn“.

Mikilvægt er að börn og unglingar í Hafnarfirði hafi aðgang að góðri öruggri aðstöðu í sínum heimabæ. Fjölmargir iðkendur hjá Björkunum hafa á síðustu árum fært sig til félaga í nágrannasveitarfélögum til þess að getað stundað sína íþrótt við mun betri og nútímalegri aðstæður en boðið er uppá að Haukahrauni. Miðað við þau svör sem fengist hafa frá Hafnarfjarðarbæ þá munu foreldrar, þjálfarar og iðkendur bíða lengi lengi eftir betri aðstöðu að Haukahrauni og á meðan fjölgar þeim sem æfa hjá félögum í nágrannasveitarfélögum.

Ásta Rut Jónasdóttir

Formaður aðalstjórnar Fimleikafélagsins Bjarkar