Haukar tryggðu sér rétt í þessu Íslandsmeistaratitilinn í Domino’s deild kvenna eftir sigur á Val í mögnuðum háspennu-oddaleik, 74-70, á Ásvöllum. Frá þessu er greint á karfan.is.
Leikurinn var mjög jafn og en þó sveiflukenndur en Haukar reyndust sterkari á lokasprettinum þrátt fyrir áhlaup Vals. Helena Sverrisdóttir leiddi Hauka með þrefalda tvennu; 21 stig, 19 fráköst og 10 stoðsendingar. Helena var einnig með þrefalda tvennu að meðaltali í allri úrslitakeppninni; 20,8 stig; 12,5 fráköst og 10 stoðsendingar – fyrst allra. Hjá Val var það Aalyah Whiteside sem leiddi með 26 stig og 10 fráköst.

Staðan í einvíginu fyrir leikinn var 2-2 en Haukum mistókst að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn á Hlíðarenda eftir mikla spennu í fjórða leiknum. Systurnar Guðbjörg Sverrisdóttir, einn besti leikmaður Vals á leiktíðinni og Helena Sverrisdóttir, fyrirliði og besti leikmaður Hauka, háðu sögulega baráttu í leiknum.

Haukar hafa þá alls fjórum sinnum fagnað Íslandsmeistaratitlinum, síðast árið 2009.