Tinna Þorradóttir er 22ja ára Hafnfirðingur og hefur búið í sama húsinu í miðbænum í Hafnarfirði síðan hún fæddist og segist munu mjög líklega ekkert fara neitt langt í burtu frá því. Tinna er snappari vikunnar og kynnir sig sjálf.

Ég tók meðal annars stórt skref í sumar þegar ég flutti á neðri hæðina hjá mömmu og pabba og bý heilum 12 skrefum frá inngangnum þeirra (já ég fór út og taldi). Ég var í Lækjarskóla öll mín grunnskóla ár og fór svo í framhaldi af því í Flensborg – þar sem ég útskrifaðist langt á eftir áætlun. Ég hef í raun og veru aldrei verið meira en í kílómetra radius frá húsinu mínu og var það stórt skref fyrir mig að fara að vinna í þjónustuverinu hjá WOW air í byrjun árs. Þar áður var ég að vinna í Ísbúð Vesturbæjar og sem sumarstarfsmaður í Íslandsbanka.

Ég útskrifaðist sem förðunarfræðingur árið 2015 og opnaði svo stuttu seinna snapchat reikninginn minn þar sem ég geng undir nafninu “makeupbytinnath”. Þetta átti í raun fyrst bara að vera snapchat þar sem ég talaði um snyrtivörur og var með sýnikennslur. Það breyttist ansi fljótt og varð þetta meira allt í bland frekar heldur en bara snyrtivörur, leiðinlegt að geta ekki breytt nafninu á aðgangnum eftir á en það verður bara að vera þannig. En í snappinu mínu sýni ég í raun allt á milli himins og jarðar, allt frá snyrtivörum og út í litlar og auðveldar mataruppskriftir.

Ég skora á Guðrúnu Sørtveit til þess að segja frá sér og sínu snappi í næsta blaði!