Kristbergur Ó. Pétursson opnar næsta föstudag, 7. Júlí kl. 17,  sýningu á eigin vatnslitamyndum í SÍM húsinu, Hafnarstræti 16.

Sumarið 2002 starfaði Kristbergur Ó. Pétursson sem gæslumaður á fuglaverndarsvæðinu við Ástjörn nálægt Hafnarfirði. Hann hafði vatnslitina með sér og greip í pensil þegar tími gafst til. „Náttúrufegurðin þarna hafði djúp áhrif á mig. Ég hafði aldrei áður varið svo miklum tíma í kyrrð og einveru, fjarri ysnum á mölinni. Í vinnuskúrnum var útvarpstæki sem ég hlustaði mikið á.“ Þá voru tíðar fréttir af landspjöllum, á Reykjanesinu og víðar um land, vegna utanvegaaksturs og annars glæfraskapar sem skildi eftir sig ljót sár á landinu. „Fyrstu verkin tengjast hugleiðingum mínum og tilfinningum vegna þess gáleysis og hirðuleysis sem viðgengst í umgengni við landið. Síðan hef ég unnið í ýmsum tilbrigðum við upphafsstefið.“

Kristbergur segir myndirnar frekar minimalískar. „Ef þær eru landslag þá er það snautt af svipmiklum einkennum svo sem fjöllum og fossum og öðru sem vekur athygli og snertir strengi. Þetta er ekki landslag póstkortanna og túristabæklinganna. Frekar landið sem við lítum áhugalausum augum útum bílrúðuna meðan við þeysum á milli áningarstaða: Heiðar, móar og melir.

kristbergur.jpg