Okkar fólk í framboði til Alþingis

Fjarðarpósturinn hafði samband við þá Hafnfirðinga sem skipa efstu sæti á framboðslista hvers stjórnmálaafls fyrir sig og munu þeir kynna sig og stefnu síns flokks í þessu tölublaði og í næstu viku.

 

Það er búið að vera sól og milt veður hérna á klakanum, lítið atvinnuleysi og allir brosandi. En er ekki enn eitthvað sem vantar? Margir í kringum mig spyrja „hvar er uppgangurinn sem sumir virðast upplifa?“. Það eru greinilega ekki allir sem upplifa hann. Allt of margt ungt fólk, barnafjölskyldur, eiga erfitt með að ná endum saman um mánaðarmót og geta ekki lagt til hliðar í sparnað. Margir eru enn í húsnæðisvanda og upplifa almenna vanlíðan og stress.

Ég veit að þorri íslensku þjóðarinnar kallar eftir mannlegum einstaklingum í brúnni, þjóðin vill ekki skurðgoð sem eru ósnertanleg. Einstaklinga sem hafa komist í gegnum lífið án þess að hafa nokkurntímann upplifað fjárhagslega erfiðleika. Sem hafa aldrei þurft að standa á þeim stað mánuð eftir mánuð að þurfa velja á milli þess að greiða leikskólavist fyrir barnið sitt, frístund eða tómstund á móti bensín kostnaði eða skóm á sjálfa sig.

Þjóðin þarf einstaklinga á Alþingi sem hafa skilning á aðstæðum 70% þjóðarinnar og geta raunverulega sett sig í spor þeirra.

Þjóðin kallar eftir fólki sem hefur þor til þess að standa upp sem fulltrúar fólksins í landinu.

Þjóðin óskar eftir fulltrúum sem hafa kjark til þess að segja það sem þeim finnst, frá eigin brjósti, hafa skilning á því hvernig það er að vera ungt fjölskyldufólk, öryrkjar, sjúklingar eða námsmenn.

Það er kominn tími til breytinga á Alþingi. Eru það bara háskólamenntaðir karlmenn yfir fimmtugu sem eru færir um að standa vaktina þar? Hvernig stjórnmálafólk viljum við hafa á Alþingi? Hvaða fólk er það sem getur speglað sig við almenning íslensku þjóðarinnar? Þorum að breyta til! Ég vil fá ólíka flóru einstaklinga allstaðar að úr samfélaginu okkar inn á Alþingi og vona að þið vilji það líka.

 

Karólína Helga Símonardóttir, skipar 2. sæti í Suðvesturkjördæmi á lista Bjartrar framtíðar