Tónlistarhátíðin HEIMA 2017 fer fram í Hafnarfirði 19. apríl – síðasta vetrardag. Hátíðin markar upphaf Bjartra daga, bæjarlistahátíðar Hafnfirðinga sem standa mun yfir dagana 19.-23. apríl.

Dagskrá heima 2017

Dagskrá heima 2017

HEIMA-hátíðin er haldin í fjórða skipti og má með sanni segja að hún hafi svo sannarlega fest sig í sessi sem skemmtileg og öðruvísi tónlistarhátíð. Boðið er upp á öðruvísi upplifun og meiri nánd en tónleikagestir sem og listamenn eiga að venjast.

Fjölskyldur munu sem fyrr opna heimili sín í miðbæ Hafnarfjarðar og í hverju húsi spila tveir mismunandi listamenn eða hljómsveitir. Fríkirkjan í Hafnarfirði hefur ákveðið opna dyr sínar fyrir HEIMA-fólki auk þess sem sviðið í Bæjarbíói verður notað eins og stofa þar sem tónleikagestir umkringja listamennina á sviðinu og þeir snúa baki í salinn.

Listamennirnir eru þrettán í ár og koma allir fram tvisvar í sitthvoru HEIMA-húsinu í miðbænum. Sveitirnar spila ekki allar á sama tíma þannig að þeir sem eru duglegastir að rölta milli húsa geti séð sem flest atriði.

Setningarhátíð HEIMA og Bjartra daga verður í anddyri Bæjarbíós kl 18.30 á sjálfan hátíðardaginn 19. apríl og þar munu handhafar aðgöngumiða fá afhent armbönd, kort af hátíðarsvæðinu, HEIMA-húsunum sem spilað er í og dagskrá. Fyrstu tónleikarnir hefjast svo kl. 20.00. og þeim síðustu lýkur um kl. 23.00. Rás 2 verður á staðnum og mun útvarpa hluta dagskrárinnar.

Skítamórall í Fríkirkjunni?

Henny María Fímannsdóttir einn skipuleggjenda HEIMA hátíðarinnar ásamt Ólafi Páli Gunnarssyni og Tómasi Axel Ragnarssyni.

Henny María Fímannsdóttir einn skipuleggjenda HEIMA hátíðarinnar ásamt Ólafi Páli Gunnarssyni og Tómasi Axel Ragnarssyni.

„Það sem er sérstakt í ár er auðvitað frábært prógramm og svo hefur Fríkirkjan opnað dyr sínar auk þess sem sviðinu í Bæjarbíói verður breytt í stofu. Í stað þess að vera með hefðbundna tónleika þar verða allir á sviðinu, bæði listamenn og gestir. Listamennirnir munu snúa baki í salinn og gestirnir á sviðinu allt í kringum þá sem spila. Það höldum við að verði skemmtileg og öðruvísi upplifun. Við eigum eftir að raða upp dagskránni og ákveða hverjir verða hvar, en væri ekki skemmtilegt t.d. að sjá Skítamóral í Fríkirkjunni?,“ segir Henny María Frímannsdóttir sem kemur að kynningarmálum fyrir Heimahátíðiðna.

Aðspurð segir hún að gengið hafi vel að fá íbúa til að lána húsin sín fyrir viðburðina. „Tómas Ragnarsson Fjarðarpósts-penni er sá okkar sem heldur utan um það og það er yfrleitt þannig að þeir sem hafa einu sinni verið með vilja gera það aftur. Þeir sem leggja til húsin sín í ár hafa flestir gert það áður en ég held að okkur vanti reyndar ennþá eitt hús og áhugasamir mega hafa samband.“

Frjáls framlög fyrir veitingar

Í ár sem og áður verður í flestum húsanna boðið upp á veitingar. Húseigendur baka sumir kökur eða útbúa samlokur og jafnvel boðið upp á kjötsúpu. Þessu til viðbótar hafa sumir boðið upp á drykki og ekki rukkað fyrir. Aðstandendur hátíðarinnar vilja þó hvetja fólk til þess að hafa með sér nokkrar krónur og setja frjáls framlög í krukku á móti þeim kostnaði sem húsráðendur leggja út fyrir.

Gestum hátíðarinnar hefur fjölgað jafnt og þétt yfir árin og segir Henny eflaust hægt að taka við 5-600 manns en í fyrra voru gestir um 400. „Ef áhuginn eykst mikið erum við með hugmyndir um hvernig það gæti gerst, en á HEIMA er auðvitað spilað fyrst og fremst heima í stofu hjá fólki,“ segir Henny að lokum og bendir á að hægt sé að kaupa miða á hátíðina á tix.is.

Myndir frá fyrri HEIMA hátíðum. Myndir: Mummi Lú