Þjóðir heims hafa sett sér markmið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, þar sem leitast er við að bæta líf jarðarbúa, frelsi og hagsæld og að tryggja að hver kynslóð skili náttúru og umhverfi í jafn góðu ástandi eða betra til komandi kynslóða. Heimsmarkmiðin snúa að fjölmörgum þáttum, s.s. útrýmingu fátæktar, eflingu heilsu, menntunar, jafnréttis, sjálfbærni, atvinnu og hagvexti, svo nokkur atriði séu nefnd.

Við getum sjálf lagt af mörkum

Þótt heimsmarkmiðin kunni að hljóma fjarri okkur og jafnvel framandi í dagsins önn eiga þau erindi við okkur hvert og eitt, hér í Hafnarfirði rétt eins og úti í hinum stóra heimi. Fögur fyrirheit um að bæta heiminn eru til lítils ef við byrjum ekki á að horfa okkur nær og taka til hendinni í eigin ranni. Við leggjum heimsmarkmiðunum lið með því að ganga vel um umhverfi okkar, efla hagsæld með atvinnu og frumkvöðlastarfi, styðja þau til sjálfshjálpar sem standa höllum fæti og leggja okkar af mörkum til að byggja upp það sem almennt má kalla gott samfélag.

Kosningaloforð sem skipta máli

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga er mikilvægt að horfa til hlutverks okkar og áhrifa sem samfélags. Þetta höfum við sjálfstæðismenn haft hugfast í verkum okkar á liðnu kjörtímabili, allt frá því við lögðum upp með kjörorðið „Heilsubærinn Hafnarfjörður“ í síðustu bæjarstjórnarkosningum, og fram til þess er við skilum af okkur nýrri umhverfis- og auðlindastefnu í góðu samstarfi með öðrum í bæjarstjórn, núna í lok kjörtímabilsins, svo dæmi séu tekin.

Heimsmarkmið SÞ spanna breitt svið en um leið standa þau okkur svo nærri í daglegu lífi. Þau eiga erindi til okkar allra og þegar spurt verður að kosningaloforðum á komandi vikum er ekki úr vegi að skoða hvernig þau samræmist þessum markmiðum og leggi grunn að bættu samfélagi til framtíðar.

Kristinn Andersen

Höfundur er verkfræðingur og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði