Salómon Kristjánsson (Monni) er fæddur 14. ágúst 1943 í heimahúsi við Öldugötu 10 í Hafnarfirði og alinn þar upp. Gaflarinn Monni heitir fullu nafni Salómon Gunnlaugur Gústaf í höfuðið á þremur sem fórust með skipinu Þormóði, m.a. ömmu sinni og móðurbróður. Hann fæddist með mislinga og heimilislæknirinn efaðist um að hann myndi lifa. Það virðist sem nöfnin hafi veitt Monna vernd því hann komst nokkrum sinnum í hann krappan um ævina. Hann var til í að deila nokkrum sögum með lesendum Fjarðarpóstins og segist afar heppinn maður. Hann er giftur Ingibjörgu Kjartansdóttur og eru afkomendurnir orðnir 17.

„Við strákarnir vorum eins og mýs og rottur að hirða það sem var nýtilegt í höfninni og feður okkar komu í verð erlendis. Lífið var viðburðaríkt þegar ég ólst upp,“ segir Monni. Á þessum tíma var ákveðinn rígur á milli Suðurbæjar og Vesturbæjar sem gekk aðallega út á það hvort hverfið væri betra. „Svo var rígur um það að við vildum ekki fá Suðurbæinn yfir í Vesturbæinn. Við hittumst því oft uppi á hamrinum, 10-12 ára strákar, til að gera upp málin með sverðum og skjöldum eins og sannir víkingar. Svo fjaraði þetta út þegar við fórum að vera saman í skóla.“ Eftir 15-16 ára aldur gekk lífið mikið út á sjómennsku og eitthvað tengt sjónum. Strákanir sóttu yfirgefna báta, sæmilega stórar trillur, í fjöruna og drógu upp á götu. „Við vorum bara að stríða lögreglunni. Algjör prakkaraskapur, ekkert alvarlega en það.“

monni_ungurTæpir við Garðskagaflös

Monni fór svo sjálfur að stunda sjóinn á trillum og minni bátum. Hans fyrsti túr á togara var með Júní til Nýfundnalands, túrinn fyrir Júlí-slysið 1959. „Ég var oft spurður að því hvernig ég þyrði að vera sjómaður, heitandi í höfuðið á þremur manneskjum sem hafa farist á sjó? Ég sagði að ég hefði aldrei orðið var við annað en að hafa haft gott af því, fann aldrei fyrir sjóhræðslu eða neinu.“ Litlu máttu þó muna þegar hann var á bátnum Sævari sem var við það að sigla upp í Garðskagaflösina, þegar Monni heyrir að sjólagið undir bátnum var orðið skrýtið. Skipstjórinn svaf og stýrimaðurinn grandalaus í brúnni. „Það var skítaveður og mikið brim á klöppunum. Ég þaut svo upp í brú og mætti þar skipstjóranum hlaupandi sem setti í bullandi hart í bak. Það er enginn vafi á að við hefðum allir annars farist þarna. Þetta var á saman stað og Þormóður fórst.“

monni_ungur_2Eldur í Hallveigu Fróðadóttur

Nokkru síðar fór Monni með Hafsteini Jóhannssyni á björgunarskipið Eldingu. Þeir lentu oft í ansi kröppum dansi við að bjarga skipum og áhöfnum. „Árið 1969 vorum við kallaðir út því það var kominn upp eldur um borð í skipinu Hallveigu Fróðadóttur. Við vorum fyrstir á staðinn og lögðumst utan með togaranum. Við fórum strax í að slökkvistarf og vorum í göllunum okkar með brunaslöngurnar til að slökkva í og reyna að ná mönnunum út. Svo kom varðskipið. Við tókum hvern af öðrum út á dekkið og lögðum þá þar niður. Ég sá að mennirnir voru dánir, þar af tveir fyrrum skipsfélagar mínir.“ Varnarliðsþyrlan var lent á varðskipinu og bandarískur hersjúkraliði bað Monna um að hjálpa sér því hann ætlaði að blása í og pumpa skipverjana, það var skylda hans. „Mín upplifun af þessu, bara við að sitja klofvega á líkunum á meðan hermaðurinn sinnti skyldu sinni, varð að ég ældi ég eins og múkki og þetta sat lengi í mér. Ég hefði þurft áfallahjálp.“

Gerðist skurðlæknir um borð

Monni vann í skipasmíðastöðinni Bátalóni 1971 og smíðaði m.a. 70 tonna báta fyrir Indverja sem ekki voru gerðir fyrir úthöf. „Við vorum tveir fengnir til að sigla bátunum, Víkingi 1 og Víkingi 2, frá Reykjavík til Hamborgar. Gamlir sjóarar voru alltaf að koma um borð því þeir sögðu það mikla glæfraákvörðun, en við lögðum af stað í enda nóvember.“ Í byrjun ferðar meiddist vélstjórinn á fæti og áætlaðir voru fjórir sólarhringar í siglinguna. Vegna aftakaveðurs urðu þeir að hvílast í Eyjum og einnig í Færeyjum. „Þá var vélstjórinn orðinn slæmur í fætinum og komum honum á sjúkrahús. Þar vildu læknar bara gefa honum penisillín og við sigldum í brjáluðu veðri og vélin bilaði í öðrum bátnum. Það var mjög dimmt en við sáum ljós frá flutningaskipinu Skaftafelli sem siglt var með okkur sem hlífskjöldur á meðan við gerðum við hinn bátinn.“

Á þessum tímapunkti var vélstjórinn orðinn svo slæmur að Monni tók tæki sem til voru, skar í fótinn og hleypti greftri út. „Ég sauð svo tangir og náði heilmiklum nabba úr, saumaði saman og batt um. Vélstjórinn var ekki deyfður eða neitt, öskrandi og veinandi greyið. Hann sagði alltaf við mig að ég hefði bjargað fætunum. Við vorum á endanum 11 sólarhringa á leiðinni og þegar við komum til Hamborgar var stórt flutningaskip sem bátarnir voru hífðir upp í lestarlúgu á eins og hver annar varningur,“ segir Monni kíminn.

Forsíðumynd: OZZO.  
Aðrar myndir í einkaeigu.