Það er fátt jafn hallærislegt og miðaldra karldýr sem hamrar á því við ungviðið hvað allt hafi nú verið erfiðara en jafnframt miklu betra í gamla daga því harðræðið á víst að vera svo agalega gott fyrir andlega sálarheill.

Ég er með endemum óminnugur, ég er eitt alversta vitni um eigin jarðvist sem anda dregur á þessari plánetu. En eitt man ég og það er snjómokstur. Ég man ekki eftir mér öðruvísi en með snjóskóflu í hönd. Snjóskóflur eru þessi fáránlega hönnuðu instrúment úr áli sem eru með spaða á stærð við átján tommu pizzakassa en handfang litlu lengra en blokkflauta. Saman smíðar þessi kokteill instant bakverk sem samkvæmt lógík miðaldra karldýrsins sem minnst var á hér að ofan á víst að auka þolgæði þolandans um ægilegan helvítis helling.

Raunar má ætla að hefði ég vaknað dauður einn dag á unglingsaldri hefði líklega staðið á póleruðu granítinu „Hér hvílir norðurbæingur, nennti fáu en var liðtækur á skóflunni“.

En þetta er ekki misminni hjá mér, bara í örstuttum botnlanganum safnaðist fjall inni í botni sem við ormarnir náðum að grafa í íbúðir sem meira en jöfnuðu íbúðafjölda stærstu blokka á Völlunum.

Þetta er liðin tíð. Nú er veturinn lítið meira en langt haust. Nagladekkin mín gera lítið annað en að minna mig á að hljóðeinangra bílinn minn betur og skíðaskór gera ekkert gagn nema einhvern langi í skemmtilega lagaðan blómapott.

En ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta bara fjandi gott. Ég get þeyst um götur bæjarins allan ársins hring á mótorhjólinu mínu og það sem best er, helvítis snjóskóflan liggur grafin undir fjalli af nýjum og skemmtilegum minningum við hlið frænku sinnar snjósköfunni.

Lengi lifi hlýnun jarðar. Því biðla ég til ykkar allra, ég veit að það er pínu dýrt en plís ekki drepa á bílunum ykkar…aldrei.

P.s. „Til marks um það hve lítt spámannslega ég er vaxinn er þessi pistill skrifaður kvöldið fyrir mestu snjókomu sem Hafnarfjörður hefur séð síðan eftir stríð.“