Rauði krossinn í Hafnarfirði og Garðabæ í samstarfi við Bókasafn Hafnarfjarðar hóf aftur  verkefnið Heilahristing (heimavinnuaðstoð) í byrjun september. Þetta er þriðja starfsár þessa verkefnis í bæjarfélaginu. Í heimavinnuaðstoðinni felst að veita grunnskólanemendum aðstoð við lestur og heimanám með það að markmiði að styðja og styrkja nemendur í námi sínu.

Agnethe Kristjánsson hjálpar dreng með íslensku. 

Heimavinnuaðstoðin verður í einu sinni í viku á þriðjudögum milli kl. 15 og 17 í fjölnotasal Bókasafns Hafnarfjarðar. Sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossins í  Hafnarfirði og Garðabæ aðstoða og leiðbeina nemendum. Öll börn eru velkomin frá 1. til 10. Bekk. „Sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum taka á móti börnunum og aðstoða. Heimanámsaðstoðin kostar ekkert og það er ekki mætingarskylda. Börnin eru hvött til að nýta sér þægilega lesaðstöðu safnsins og fá um leið þá aðstoð með heimanám sem þau þurfa,“ segir Páll Daníelsson, deildastjóri Rauða krossins í Hafnarfirði og Garðabæ.

Þessi unga stúlka var mjög einbeitt og henni fannst gott að koma í bókasafnið. 

Markmið að rjúfa félagslega einangrun

Páll byrjaði upprunalega að starfa hjá Rauða krossinum í Ungu fólki til athafna í hruninu. „Þar fann maður rosalega hvað það hjálpaði fólki að komast í virkni. Þar vann ég mest með yngra fólki, seinna fór ég að sjá um önnur verkefni deildarinnar, þar á meðal heimsóknavini, sem hjálpa að rjúfa félagslega einangrun og það gladdi mig ávallt að koma saman frábærum sjálfboðaliðum og góðum gestgjöfum sem kunnu vel að meta að fá heimsóknir.“ Einnig tók hann að sér að leysa af sem forstöðumaður þrjú sumur í Læk, athvarfi fyrir fólk sem hefur átt við geðraskanir að stríða. „Markmið með starfseminni er að auka lífsgildi og efla andlega, líkamlega og félagslega vellíðan svo og hæfni í daglegri virkni. Þar sem að ég kynntist fullt af æðislegu fólki. Aðaltakmark deildarinnar er að rjúfa félagslega einangrun.“

Þessi skoðaði afar fræðilega bók sem honum fannst mjög skemmtileg. 

Klukkustund í viku getur skipt sköpum

Heimsóknavinir eru sjálfboðaliðar sem heimsækja fólk á heimili þess, á stofnanir, sambýli og dvalar- og hjúkrunarheimili. Misjafnt er hvað felst í heimsókn en það getur t.d. verið spjall, gönguferð, ökuferð, upplestur, aðstoð við handavinnu og svo framvegis. Beiðnir eru breytilegar, en reynt er að mæta þörfum og óskum gestgjafanna  eins og kostur er. Viðmið er að heimsóknartími sé um klukkustund einu sinni í viku. Hvenær og hvar heimsóknin á sér stað er samkomulagsatriði hjá gestgjafa og heimsóknavini. „Hlutverk heimsóknavina er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju. Sjálfboðaliðarnir sækja undirbúningsnámskeið hjá Rauða krossinum og eru bundnir trúnaði við þá sem þeir heimsækja,“ segir Páll sem hvetur alla sem áhuga hafa á að bætast í hóp heimsóknarvina eða í önnur sjálfboðaliðastörf hjá Rauða kriossinum að hafa samband í palli@redcross.is.

Guðrún Bjarnadóttir hjálpar til með stærðfræði. 

Þessi unga dama var að lita heimaverkefni þegar okkur bar að garði. 

 

Myndir (OBÞ):
Forsíða: Páll í fjölnotasal bókasafnsins.