„Við munum safna peningum auk þess að hafa gaman og koma okkur í gott form. Allt styrktarfé rennur óskert til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna,“ segir parið Margrét Hrönn Frímannsdóttir og Elvar Jónsson, en þau eru íbúar í vallahverfinu og hafa hjólað tugi kílómetra (jafnvel hundruð) á dag víða um landið síðan í vor til að búa sig undir að hjóla hátt í 1300 kílómetra á sjö dögum til Parísar. Í ár taka Íslendingar í fyrsta sinn þátt í samnorrænu góðgerðarstarfi undir nafninu Team Rynkeby.

 Margrét Hrönn og Elvar eru tvö af þremur Hafnfirðingum í liðinu. Þau kynntust verkefninu aðeins á síðasta ári, þar sem vinafólk þeirra tók þátt með dönsku liði og ákváðu að sækja um, fyrst vegna áskorunarinnar að hjóla þessa leið, en eftir því sem hefur liðið á æfingarnar hefur vægi þess að láta gott af sér leiða aukist til muna. Hver þátttakandi greiðir kostnaðinn við ferðina sjálfur. Ferðir, gistingu, hjólið og búninginn, þannig að hver króna sem safnast í verkefnið rennur óskipt til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna.

Tugir og hundruð kílómetra

„Liðið var með vikulega spinningtíma í vetur og fram á vor, en í apríl komu hjólin til landsins og þá strax hófust æfingar úti. Síðan þá hafa verið æfingar öll miðvikudagskvöld og svo farið í lengri ferðir á laugardögum,“ segir parið og bætir við að  það sé á ábyrgð hvers og eins í liðinu að æfa sig, en á undirbúningstímabilinu séu fjórar skylduæfingar, frá 60 km upp í 210 km. Þegar Fjarðarpósturinn heyrði í þeim voru þau nýkomin af síðustu æfingu liðsins og var verið að ganga frá að pakka hjólunum í kassa þar sem þau verða send með flugi á undan hópnum til Danmerkur þar sem byrjað verður að hjóla á laugardaginn næsta.

rynkeby_armbond

Armböndin sem Ingi í SIGN hannaði fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna. 

Styrkja krabbameinssjúk börn

Liðsmenn félagsins hjóla á hverju ári víða frá Norðurlöndum til Parísar og safnar þannig peningum til styrktar krabbameinssjúkum börnum. Í dag samanstendur Team Rynkeby af 1.700 hjólreiðamönnum og 450 aðstoðarmönnum sem skiptast í 44 lið frá Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Noregi, Færeyjum og Íslandi. Þátttakendurnir eru valdir úr þúsundum umsækjenda sem hafa fyllt út umsóknareyðublaðið á heimasíðu Team Rynkeby. Styrkja má verkefnið hér.