Kosningar eru gífurlega mikilvægar fyrir okkur sem lýðræðisríki. Það er slæmt ef samfélagið missir áhugann á þeim. Þá er samfélagið pínu lasið. Það sem skemmir oft kosningar eru atkvæðaveiðar sem ganga út á skítkast, skotgrafahernað og innantóm loforð. Eitthvað sem við þekkjum því miður vel. Ég held að við getum öll verið sammála um að við nennum ekki svoleiðis lengur.

Eitt af málefnum komandi sveitastjórnakosninga er þessi margumtalaða borgarlína. Samgöngumál skipta höfuðborgarbúa mjög miklu máli og þessi tiltekna umræða skiptir okkur Hafnfirðinga kannski sérstaklega miklu máli, þar sem við erum í útjaðri höfuðborgarsvæðisins. Nú þegar er fólk farið að skiptast í mjög afgerandi fylkingar með eða á móti borgarlínu. Það er ákveðin ávísun á að það eina gerist sem má í raun ekki gerast. Það er að það gerist ekki neitt.

Við hljótum öll að vera sammála um að það þurfi að gera eitthvað í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Skotgrafahernaður sem einblínir á að sigra andstæðinginn í með eða á móti skothríð missir auðveldlega sjónar á umhverfinu og getur auðveldlega misst af tækifærinu til að komast að niðustöðu. Í þessu borgarlínumáli hljótum við til dæmis að gera þá kröfu að þeir sem taka við keflinu eftir næstu kosningar taki að minnsta umræðuna í stað þess að festast í gildru þess að verða að vinna eitthvað þrjóskustríð. Svo kemur í ljós hvert umræðan leiðir. Kannski er borgarlínan snilld og kannski ekki. Kannski kemur umræðan okkur að einhverri sameiginlegri lausn sem er jafnvel betri. Umræðan og sjálfstraust til að hlusta á aðra er lykillinn.

Stjórnmálin eru fyrir samfélagið en samfélagið ekki fyrir stjórnmálin. Þess vegna eiga ákvarðanir að vera teknar með hag samfélagsins í huga en ekki vangaveltur um pólitíska framtíð stjórnmálamanna eða flokka. Þannig eru heilbrigð stjórnmál. Þannig er heilbrigt samfélag.

Birgir Örn Guðjónsson (Biggi lögga)