Hið Íslenska Gítartríó fagnar sumri með tónleikum í Vinnustofu Soffíu Sæmundsdóttur hér í Hafnarfirði næstkomandi sunnudag, 29. apríl kl. 15:30. Efnisskráin inniheldur íslenska og suðræna tónlist eftir Oliver Kentish, Isaac Albeniz og Paulo Bellinati þar sem hlýir vindar og blóðheitar tilfinningar munu ráða ríkjum. Frítt er inn á tónleikana. 

Hið Íslenska Gítartríó var stofnað árið 2011 og hefur síðan þá verið leiðandi hópur í flutningi á klassískri gítartónlist á Íslandi. Tríóið hefur flutt ný íslensk verk sérstaklega samin fyrir hópinn í bland við þekktari verk tónbókmenntanna og hefur með því markað sér sérstöðu á alþjóðlega vísu og fjölgað verkum fyrir þessa hljóðfæra samsetningu svo um munar. Á meðal þeirra tónskálda sem samið hafa verk fyrir tríóið eru Oliver Kentish, Hróðmar I. Sigurbjörnsson og Elín Gunnlaugsdóttir. Af liðum verkefnum tríósins má nefna tónleika á Myrkum Músíkdögum í Hörpu 2016, í Kaupmannahöfn 2015 og afmælistónleika Olivers Kentish í Norræna Húsinu 2014. Tríóið skipa Þórarinn Sigurbergsson, Þröstur Þorbjörnsson og Svanur Vilbergssson.

Tónleikarnir er styrktir af Menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðar.

Vinnustofa Soffíu er í þessu húsnæði við Fornubúðir.