Hafnarfjarðarhöfn er ein elsta höfn landsins, á sér merka sögu og er einstök frá náttúrunnar hendi.   Rekstur hafna á Íslandi hefur verið erfiður mörg undanfarin ár og höfum við í Hafnarfirði ekki farið varhluta af því. Hér var blómleg fiskihöfn og öflug togaraútgerð en á örfáum árum hvarf öll útgerð frá bænum og þar með stór tekjulind hafnarinnar.

Árið 2014 auðnaðist mér að taka við sem formaður Hafnarstjórnar og við sem skipuðum meirihluta bæjarstjórnar fórum í miklar rekstarhagræðingar undir forystu Haraldar L.  Haraldssonar bæjarstjóra. Höfnin var þar ekki undanskilin þar sem lítill hagnaður var af rekstri og skuldastaðan þung.  Á árinu 2014 skilaði höfnin liðlega 50 milljónum í rekstarafgang og því takmarkað fjármagn til  framkvæmda eða til að greiða niður eldri framkvæmdalán uppá nær 600 milljónir. Áhersla var lögð á hagræðingu og að nýta öll sóknarfæri til aukinnar tekjuöflunar. Nýr hafnarstjóri kom til starfa árið 2016 og deildi hann sömu sýn á málefni hafnarinnar sem setti aukinn kraft í uppbyggingu og rekstur hafnarinnar.

Á nýliðnu ári  2017 skilaði höfnin hátt í 300 milljónum í rekstarafgang og öll langtímalán hafnarinnar verða að fullu uppgreidd á næsta ári.  Á sama tíma er verið að fara í framkvæmdir með nýjan hafnarbakka og nýframkvæmdir fyrirtækja verða víða á hafnarssvæðinu á þessu ári. Hér er ekki um að ræða einhverja töfrabrellu eða skyndigróða, heldur aðhaldi í rekstri, opnun tækifæra fyrir fyrirtæki sem leituðu að framtíðarstað og nútímavæðingu hafnarinnar.

Skrifað var undir samning við Hafrannsóknastofnun í upphafi árs og mun sú merka stofnun vera í framtíðarhúsnæði við höfnina okkar. Tvö rannsóknarskip Hafró munu hafa legurými við Háabakka svokallaðan en þar er Hafnarfjarðarhöfn hefja framkvæmdir við nýjan hafnarkant.  Búið er að bjóða út verkið og verklok verða í  byrjun næsta árs.

Sala lóða hefur gengið vonum framar, Vélsmiðja Orms og Víglundar var nýverið að festa kaup á stórri lóð við flotkvíarnar, Köfunarþjónustan festi sér stóra lóð á sl. hausti og þar er framkvæmdir komnar af stað. Trefjar eru að stækka sitt húsnæði og svo má áfram telja. Frystigeymsla Eimskips hefur verið í fullum rekstri frá opnun 2015  og þar er stefnt að frekari stækkun.  Umferð skemmtiferðaskipa hefur aukist síðustu árin og í sumar koma um 20 skip til Hafnarfjarðar. Þá stendur nú yfir opin hugmyndasamkeppni um framtíðarsýn fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæðið og niðurstaða verður kynnt í byrjun maí.   Það er því óhætt að segja að það sé núna mikill og góður uppgangur hjá Hafnarfjarðarhöfn, mikil og góð samstaða hefur verið í hafnarstjórn, þvert á flokka og fólk og er það lykilatriði í árangri.

Unnur Lára Bryde, formaður Hafnarstjórnar.