Plast er eitt af verstu óvinum sjávarlífríkisins og nú er að koma betur í ljós að örplast (plastagnir sem eru minni en 5mm að þvermáli) er þar sérlega hættulegt. Örplast skiptist í tvær tegundir, annars vegar plast sem er framleitt í smáum ögnum og finnast t.d. í snyrtivörum og hins vegar afleitt örplast sem á uppruna sinn í öðrum vörum s.s. fatnaði eða stærri plasteiningum sem brotnað hafa niður. Nú rennur þetta plast að megninu óhindrað til sjávar í fráveitum landsins, en með öflugri hreinsun er hægt að fanga um 99% af örplastinu áður en það rennur til sjávar.

Við í Sjálfstæðisflokknum viljum sjá minni plastnotkun og við viljum hefja hreinsun örplasts í fráveitukerfinu.

Endurvinnsla er mjög mikilvægur hlekkur í umhverfisvernd og nú í byrjun árs hófst söfnun plasts í orkutunnunni við heimili Hafnfirðinga. Þannig var Hafnfirðingum gert auðveldara að koma flokkuðu plasti í endurvinnslu.

Við í Sjálfstæðisflokknum viljum bæta um betur og sjá Hafnarfjörð vera leiðandi í flokkun sorps. Við viljum fjölga grenndarstöðvum fyrir flokkun og bæta aðgengi að þeim.

Einn af umhverfisvænustu ferðamátunum eru rafbílar, en þeir eru sérlega umhverfisvænir á Íslandi vegna umhverfisvænna aðferða við framleiðslu raforku. Á kjörtímabilinu kom Hafnarfjarðarbær upp tveimur hleðslustöðum fyrir rafmagnsbíla, annars vegar hraðhleðslustöð við Fjörð og hins vegar hæghleðslustöð við Ásvallalaug og hefur nýting þeirra verið með ágætum.

Við viljum halda áfram að styðja við rafbílavæðingu með skipulagningu á aðstöðu fyrir hleðslustöðvar í Hafnarfirði.

Við í Sjálfstæðisflokknum viljum að Hafnarfjörður verði leiðandi í umhverfismálum!!

 

Tinna Hallbergsdóttir skipar 11. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði