Þegar ég lít yfir verkin mín á kjörtímabilinu sem senn er á enda er eitt sem stendur uppúr, ráðningin á Haraldi Líndal Haraldssyni bæjarstjóra. Við hefðum ekki getað verið heppnari með mann í brúna.

Bæjarstjórn ætti á hverjum tíma að endurspegla fjölbreytnina í bæjarlífinu, vera rödd bæjarbúa. Ég hitti varla bæjarbúa sem ekki ber Haraldi vel söguna, hvort sem um er að ræða starfsmann hjá bænum eða fólkið á götunni. Óháð flokkslínum eru orð eins og heiðarlegur, mannlegur og sanngjarn algeng þegar talið berst að bæjarstjóranum.

Því þykir mér sérkennilegt hvað flokkarnir sem nú bjóða fram til bæjarstjórnar tala lítið um Harald, eru þeir ekki að hlusta á fólkið?

Hagstæðasti bæjarstjóri höfuðborgarsvæðisins

Launakjör bæjarstjóra eru talsvert rædd þessa dagana. Því vil ég benda á að launakjör okkar bæjarstjóra fylgja ekki þingfararkaupi og taka ekki hækkunum kjararáðs. Í dag munar upp undir milljón á bæjarstjóra Hafnarfjarðar og Kópavogs, svo dæmi sé tekið. Það er eitthvað ofan á brauð.

Bæjarlistinn vill Harald áfram

Hafnarfjörður er þriðja stærsta sveitarfélag landsins. Það eitt og sér ætti að vera nóg ástæða til að gera sterkar kröfur um sérþekkingu þegar bæjarstjórinn er annars vegar. Tengslamyndun við starfsfólk bæjarins er annar mikilvægur þáttur. Það verkefni hefur Haraldur leyst afar vel og verðmætt að halda þeirri tengingu við. Traust er ekki unnið á einni nóttu.

Bæjarlistinn vill bjóða trausta þekkingu í bland við ferska vinda. Hóp sem starfar bara fyrir Hafnarfjörð, ótengt flokkspólitík. Og bæjarstjóra sem kann til verka.