Fyrir mér er næringargildi hróss í samskiptum eins mikilvægt og lýsis í mataræði. Það tekur enga stund en hefur langímaáhrif.

Ég er alin upp við það að þegar fólk gerir eða segir eitthvað virkilega gott, þá sé sjálfsagt að hrósa fyrir það. Ekki bara sjálfsagt, heldur fylgir því líka góð tilfinning að gefa af sér.

Algengt viðhorf þeirra sem hrósa sjaldan er: „Æ, hann veit alveg hvað hann er góður“ eða „Æ hún veit alveg hvað hún er dugleg“ eða „Þau ofmetnast!“.

Raunin er bara sú að við erum langflest svo iðin við að minna sjálf okkur á hvað við erum ekki – eða draga okkur niður á einhvern hátt. Ein örlítil áminning um að við stöndum okkur vel getur bjargað heilum degi, jafnvel viku.

Að sumra mati veigra þeir sér helst við því að hrósa af ótta við viðbrögðin því ótrúlega margir eiga erfitt með að taka hrósi. Ég hef þó tekið þann pól í hæðina að láta það ekki á mig fá. Ég ætla ekki að láta einhverja örfáa fúla föndrara stöðva mig í því að gefa af mér. Ég tek bara áhættuna.

Það virðist bara vera málið hjá sumu fólki að vera þessi reiða týpa, sko. Það er svo virðingarvert að gagnrýna allt og þá er maður svo góður þjóðfélagsþegn. Allir jákvæðir eru fífl í afneitun með sjálfshjálparbækur í hanskahólfinu!

Sem betur fer eru mjög margir líka jákvæðir. Ég treysti á þá og hvet þá til að gefast ekki upp á því hafa góð áhrif á aðra í kringum sig.

Fyrir ykkur sem eigið von á hrósi frá mér eða öðrum. Segið bara: „Takk fyrir“, það er kurteisi og það er nóg. Það þarf ekki að hrósa til baka.