Ólafur Hjálmarsson, vélfræðingur og íbúi við Svöluás, tók sig til fljótlega eftir að nýtt ár gekk í garð og hreinsaði flugeldadót af götum hverfisins. Fjarðarpósturinn fékk ábendingu um þetta góða samfélagsverk og mælti sér mót við Ólaf, sem segist gjarnan kallaður „Óli allsstaðar“ eða „Óli sumsstaðar“ í seinni tíð.

Kerran góða sem Ólafur notaði við að týna ruslið. Myndina tók hann sjálfur. 

Ólafur flutti ásamt eiginkonu sinni, Emilíu Karlsdóttur, í Áslandið fyrir tveimur árum og þau kunna afar vel við sig í Hafnarfirði. Þau hófu reyndar búskap sinn hér í bæ fyrir mörgum árum en segjast komin til að vera. Mikið var sprengt af flugeldum um áramótin, eins og vant er, og lágu tómar umbúðir og kassar víða við vegarkanta í hverfinu. „Ég á tvíburadætur og fjögur barnabörn. Einn afastrákurinn minn er mikið snyrtimenni, Askur Óli Hrannarsson, og hann vill hafa hreint í kringum sig, líka í umhverfinu. Hann hefur góð áhrif á mig og ég fór bara rúnt með kerruna mína, sem er tilvalin í svona leiðangur, enda átti að hvessa og fínt að ná þessu í kerruna áður,“ segir Ólafur sem starfar hjá Orku náttúrunnar og því ekki skrýtið að hann láti sig náttúruna varða. „Ég kíkti svo við á bæjarskrifstofunni og benti þeim á að víða væri búið að losa botninn undan fullum ruslafötum í hverfinu. Ég sá það á einni göngunni um hverfið. Það verður kannski næsta verkefni mitt að hreins það upp,“ segir Ólafur og hlær.

 

Mynd OBÞ: Ólafur og Askur Óli í bílskúrnum við 66 módelið af GAZ 69 rússajeppa.