Næstkomandi laugardag blæs Hafnarfjarðarbær til vorhreinsunardaga í bænum þar sem íbúar eru hvattir til þátttöku sem skipulögð er við lóðir grunnskólanna og sundstaði í bænum. Þá verður einnig unnið með fyrirtækjum í hreinsun í þeirra umhverfi og gámum komið fyrir á þremur stöðum í Hafnarfirði og eru gámar einkum hugsaðir fyrir losun á timbri og járni frá fyrirtækjum á hverju svæði fyrir sig.

Hreinsunardagur starfsfólks verður 18. apríl en þá tekur starfsfólk bæjarins sig til að þrífa í nágrenni ráðhússins og annarra opinberra bygginga. Götuþvottur er þegar hafin og er á fullu í bænum og þá verður garðaúrgangur sóttur í byrjun maí

 

TÝNUM, PLOKKUM, GRILLUM, GLEÐJUMST OG SYNDUM

„Flottur fjörður“ er heiti átaksins sem verður hrint af stokkunum á laugardaginn 7. Apríl við Áslandsskóla og Hraunvallaskóla. Tekið verður til á skólalóðunum og í hverfunum um kring en dagskrá átaksvikunnar er eftirfarandi

  • Laugardaginn 7. apríl verður vorhreinsun við Lækjarskóla og Setbergsskóla frá 11:00 til 13:30. Tekið verður til á skólalóðunum, í miðbænum og Setberginu og enda við Suðurbæjarlaug
  • Þriðjudaginn 10. apríl verður vorhreinsun við Víðistaðaskóla starfsstöðina við Víðistaðatún og Engidal. Tekið verður til á skólalóðunum í norður- og vesturbænum frá kl. 16:30-19:00 og endað við Sundhöllina.
  • Miðvikudaginn 11. apríl verður vorhreinsun við Áslandsskóla og Hraunvallaskóla. Tekið verður til á skólalóðunum, í Áslandinu og á Völlunum frá klukkan 16:30 til 19:00 og endað í Ásvallalaug.
  • Fimmtudaginn 12. apríl verður vorhreinsun við Hvaleyrarskóla og Öldutúnsskóla. Tekið verður til á skólalóðunum, á Holtinu og Suðurbænum frá kl. 16:30 til 19:00 og endað við Suðurbæjarlaug.

Það nýjasta í hlaupum og útivist er svokallað „plokk“ sem er af sænskri fyrirmynd þar sem fólk safnast saman og labbar eða skokkar og týnir upp rusl í leiðinni. Þetta er tilvalið tækifæri fyrir „plokkara“ að láta sjá sig og læra eða kenna „plokkið“. Ruslapokar, ruslatínur og gámar verða á staðnum en áhugasamir eru beðnir að klæða sig eftir aðstæðum og koma með hanska eða vettlinga en af umhverfisástæðum verður ekki boðið uppá einota-plasthanska. Öllum verður boðið í pylsuveislu eftir törnina og svo fá allir sem taka þátt frítt í sund og smá glaðning frá Hafnarfjarðarbæ.

 

HREINSUNARDAGUR STARFSMANNA HAFNARFJARÐARBÆJAR

Starfsfólk Hafnarfjarðar lætur sitt ekki eftir liggja en hreinsunardagur þeirra verður 18. apríl. Þá hreinsa starfsmenn svæðin í kringum vinnusvæðin sín. Starfsmenn ráðhússins hafa sem dæmi í nokkur ár týnt rusl og sópað Thorsplanið og önnur svæði í nágrenni Ráðhússins.

 

FLOTTAR FYRIRMYNDIR MEÐAL FYRIRTÆKJA Í HAFNARFIRÐI  

Eins og fram kom hér að ofan verður einnig unnið með fyrirtækjum í hreinsun í þeirra umhverfi og gámum komið fyrir á þremur stöðum í Hafnarfirði og eru gámar einkum hugsaðir fyrir losun á timbri og járni frá fyrirtækjum á hverju svæði fyrir sig. Gámar verða á svæðinu daganna 9. til 18. Apríl.  Fyrirtæki eru sérstaklega hvött til að nýta sér þessa þjónustu bæjarins og leggja bænum þannig lið í að gera ásynd hans sem besta. Gámarnir verða staðsettir sem hér segirhttps://www.hafnarfjordur.is/media/uncategorized/d89tx6fd.JPG

GARÐAÚRGANGUR VERÐUR SÓTTUR Í BYRJUN MAÍ

Eins og venja er hirðir bærinn garðaúrgang bæjarbúa. Sú hreinsun er skipulögð eftir hverfum og fer fram í byrjun í maí.

GÖTUSÓPUN Í FULLUM GANGI

Þessa daganna er verið að vinna götuþvott af fullum krafti. Vinnan hefur staðið yfir alveg frá því í byrjun mars þar sem þvegnar hafa verið stofnbrautir. Hér að neðan er svo áætlun sem verið er að vinna eftir en um er að ræða allsherjar sópun á Hafnarfirði samkvæmt eftirfarandi plani. Sópun á aðalgönguleiðum 23.mars – 3.apríl. Sópun á öllum götum bæjarins  3. – 24. apríl. Sópun á öllum stéttum 3.apríl– 10. Maí. Sópun á bílaplönum 3. apríl – 1. Maí. Þvottur á eyjum 3. apríl – 15. Maí. Miðbæjarsóp aðra hverja helgi. Því til viðbótar er lítill traktor að sópa hjóla og göngustíga þessa daganna en hann er með sóp framan á sér