Uppselt er á Hressleikana sem haldnir verða haldnir í 10. sinn næstkomandi laugardag 4. nóvember. Hressleikarnir eru einstaklega gleðilegur viðburður þar sem kærleikur, vinátta og gleði fara saman. Iðulega hefur verið safnað verulegum fjárhæðum sem hafa svo runnið til fjölskyldna sem þurfa á stuðningi að halda. Allt starfsfólk hress gefur vinnuna sína þennan dag og 250 manns taka þátt. 

 

Það er einstök fjölskylda úr Áslandinu sem Hress ætlar að styrkja í ár. Steinvör V. Þorleifsdóttir og Kristjón Jónsson voru mikið útivistarfólk í gegnum tíðina, stunduðu fjallamennsku og ferðuðust um landið enda miklir náttúruunnendur. Þau kynntust í Hjálparsveit Skáta í Reykjavík þar sem Kristjón var undanfari og vann m.a. það afrek að ganga á Mont Blanc. Dætur þeirra hjóna eru Þórhildur 10 ára og Kristín Jóna 12 ára

Kristjón, sem er menntaður rafeindavirki, greindist með botnlangakrabbamein árið 2009 sem náðist að lækna með aðgerð og fyrirbyggjandi lyfjameðferðum. En því miður greindist hann aftur 2014 og fór í kjölfarið í mjög erfiðar lyfjameðferðir og í aðgerð í Svíþjóð. Því miður dugði það ekki til og Kristjón lést í júní 2016 eftir harða baráttu enda var uppgjöf ekki til í hans orðabók.

 

 Fjölskylda Steinvarar. 

Árið 2006 hafði Steinvör greinst með skjaldkirtilskrabbamein sem hún náði að sigrast á. Fyrir tilviljun fundust meinvörp í lungum Steinvarar í apríl sl. Eftir miklar rannsóknir kom í ljós að hún er með sarkmein sem kallast Pecoma. Þetta er fyrsta tilfellið af þessu krabbameini á Íslandi enda afar sjaldgæft krabbamein og talið að 1 á móti milljón fái þetta mein.

Krabbamein Steinvarar er á fjórða stigi og er í kviði og báðum lungum. Það er hægt að halda þessu krabbameini niðri með sterkum krabbameinslyfjum. Í kjölfarið þarf Steinvör að vera frá vinnu næstu mánuðina og hugsa vel um sig svo mögulega verði hægt að fjarlægja æxlið í kviðarholi. Sem betur fer náði þessi einstaka fjölskylda að nýta tímann vel saman og búa að góðum minningum.

Árlega hefur Hress náð að sfna verulegum fjárhæðum sem sannarlega hafa skipt sköpum og létt undir.

Sala á happdrættismiðum eru enn í fullum gangi og allir eru velkomnir að taka þátt í því. 

 Söfnunarreikningur HRESSLEIKANNA:

0135-05-71304 á kenni­tölu 540497-2149.

Nánar um Hressleikana hér.  

 

Myndir: Af síðu Hress.