„Við lifum á tímum sem margir kalla úthverfa, sem einkennast af þónokkurri eigingirni, ásókn í ytri gæði, tækni­ og hlutadýrkun, nýjungagirni, einkaneyslu og sóun verðmæta. Okkur er sagt, að á slíkum tímum sé hugsjón ekki í tísku,“ sagði prófessorinn og spekingurinn Njörður P. Njarðvík í aðsendri grein í Morgunblaðinu fyrir meira en 20 árum. Þetta smellpassar samt inn í árið 2017.

Hugsjón er fallegt orð; sjón hugans, innri sýn. Elsta dæmi um notkun orðsins í íslensku ritmáli er úr bænakveri frá árinu 1780. Þá var minna um tækni, einkaneyslu og hlutadýrkun á Íslandi sem reið húsum 200 árum síðar.

Hugsjónafólk er af ýmsum toga og innri sýn þeirra æri misjöfn. Þegar sjón hugans einkennist af samkennd, hlýju, elsku og samlíðan er hægt að breyta heiminum á fallegan hátt. Okkur dettur eflaust strax í hug nöfn einstaklinga af mörgum og ólíkum þjóðernum sem ruddu brautir og komust í sögubækurnar. Fólk sem hafði trú á málstað sínum og bætti í kjölfarið líf fjölmargra.

Ég kynntist um helgina Kjartani Theódórssyni og unnustu hans sem búa í tjaldi á Víðistaðatúni. Þau hafa ekki efni á að búa á almennum leigumarkaði og langar að safna sér fyrir hjólhýsi fyrir veturinn. Kjartan er hjartveikur en hann skortir ekki hjartahlýju. Með húmor fyrir sjálfum sér og aðstæðum sínum í farteskinu sagði hann sögu sína á Snapchat, þó með beittum og alvarlegum undirtóni því hann veit að margir eru í sömu stöðu og jafnvel miklu verri málum. Hann vill vekja athygli á aðstæðum þessa fólks, sérstaklega þegar styttist í veturinn.

Kjartan varð hugsjónamaður og rödd þessa hóps á einni nóttu. Fjölmiðlar höfðu samband og hann viðurkennir í einstaklega einlægum „snöppum“ sínum að þessir dagar taki á því hann heyrir og sér svo margar sögur og hann langar að hjálpa svo mörgum. Kjartan þarf okkur í lið með sér. Hann vill að við opnum augun. Byrjum þar.