Hafnarfjörður er ólíkur nágrannabæjarfélögunum. Í stað þess að vera sofandalegt úthverfi er
hann lifandi bær með sterkum sérkennum. Flestir hafnfirðingar vilja halda í þennan
bæjarbrag, sem einkennist m.a. af því að sækja sem mesta atvinnu og þjónustu innan
bæjarfélagsins og að fólk á öllum aldri og í mismunandi stöðu geti búið í firðinum án
vandkvæða. Skipulag húsnæðismála er afgerandi þáttur varðandi aldurssamsetningu og
fjölbreytileika hverfa og bæjarfélaga og ræður jafnframt mestu um hvort viðkomandi svæði
verður lifandi bær eða ekki.

Píratar í Hafnarfirði vilja leggja áherslu á blandaða byggð þar sem íbúar geta lifað, starfað og
leikið. Þetta innifelur m.a. að í skipulagningu hverfa skuli gert ráð fyrir húsnæði sem hæfir
fólki á öllum aldri m.t.t. stærðar og kostnaðar, ásamt því að gert sé ráð fyrir leiguhúsnæði
sem m.a. sé rekið á óhagnaðardrifnum forsendum. Leggja skal áherslu á að koma jafnvægi á
húsnæðismarkaðinn með byggingu smærri og ódýrari íbúða, ásamt auknu framboði á
félagslegu húsnæði í samstafi við nágrannasveitarfélögin. Í eldri hverfum verði lögð áhersla á
þéttingu byggðar en samhliða byggð upp þjónusta í göngufæri ásamt því að tengja þau
greiðum almenningssamgöngum.

Skipulag húsnæðismála er langtímaverkefni sem krefst framsýni, ekki aðeins hvað varðar
lýðfræðileg viðfangsefni s.s. aldurssamsetningu íbúa og þá þjónustu sem veita þarf, heldur
einnig varðandi samgöngumál. Afar mikilvægt er að framtíðarskipulag húsnæðismála sé
unnið með hliðsjón af vistvænum samgöngum og í takti við fyrirhugaða Borgarlínu. Við þessa
vinnu er nauðsynlegt að hafa virkt samráð við bæjarbúa og hagsmunahópa s.s. eldri borgara.

Haraldur R. Ingvason
Höfundur skipar 5. sæti á lista Pirata í Hafnarfirði