Díana Margrét Hrafnsdóttir heiti ég og hef búið í Hafnarfirði alla mína tíð í hrauninu við hafið.

Ég útskrifaðist vorið 2000 úr Listaháskóla Íslands, þar sem ég lærði grafík og leir, einnig hafði ég áður stundað nám í Myndlistarskólanum í Reykjavík. Ég er félagi í Íslenskri Grafík og Sambandi Íslenskra Myndlistamanna(SÍM). Hef haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hér heima og erlendis. Ég er með vinnustofu í Íshúsi Hafnarfjarðar ásamt  öðrum listamönnum og hönnuðum. Þar áður hafði ég verið með vinnustofu á Korpúlfsstöðum en ákvað að koma í heimabæinn þegar Íshús Hafnarfjarðar fékk nýtt hlutverk.

Í grafíkinni vinn ég aðallega í tréristur þar sem hugmyndir og innblástur koma frá hafi. Samspil hafs og veðurs eru mér hugleikin. Veður og haf eru síbreytileg og eilíf uppspretta nýrra hugmynda.

Í leirnum vinn ég í steinleir. Skúlptúra sem ég kalla Krumlur þar sem ég horfi í hraunið sem er síbreytilegt, ógnvekjandi en skemmtilegt í senn þar sem uppspretta leikja og ævintýra eru dýrmætar minningar. „Hvað býr í hrauninu?“

Skúlptúrarnir mínir eru til sölu í Litlu Hönnunarbúðinni við Strandgötu hér í bæ. Þar fást líka listmunir og hönnunarvörur eftir fleiri Íshússbúa. Meiri upplýsingar um mig er að finna á heimasíðu minni.

Hraunið er fyrirmynd margra verka Díönu.