Til að teljast slíkur varð maður að hafa fæðst á Sólvangi og unnið í bæjarútgerðinni. Það er pínu vandamál þar sem fæðingar lögðust þar af fyrir sirka fjörutíu árum og þar sem bæjarútgerðin eitt sinn stóð höfum við nú skínandi exemplar af byggingarstíl efra Breiðholtsins sem gnæfir yfir kvótalausa höfnina. Til að fá mömmu mína, Seltirninginn, til að ala barn í sveitinni, sem hún áleit Fjörðinn á þeim tíma, hefði pabbi þurft að beita meðulum sem líkast til hefðu kostað hann fangelsisvist. En strax og vöggustofunni sleppti var mér troðið inn í 42 módel af Willýs (reyndar var hann af Ford gerðinni) og ekið úr kaupstað beint suður á Álfaskeið hvar ég ólst upp með vitann nánast í garðinum. Unglingaveikina tók ég svo út í grænu blokkinni í Norðurbænum.

Fyrsta vinnan mín var að ganga í hús og selja blaðið sem þú, lesandi góður, ert með í höndunum nú. Þá var manni úthlutað svæði og svo gekk maður hús úr húsi og falbauð fólki Fjarðarpóstinn til sölu. Launin voru kommisjón af seldum blöðum og ég man að þau nægðu alltaf til að fara upp í Músík og sport og kaupa eina plötu á viku. Fyrsta platan sem ég keypti fyrir blaðsölupeningana var tónlistin úr La Bamba sem bendir til þess að árið hafi verið 1987 og ég ellefu ára.

Það árið var hver plata mér tveggja eða þriggja kvöldstunda virði. Ég ákvað að sjá hvað ég væri lengi að hlaða henni niður ólöglega. Ég var rétt rúma mínútu að finna torrentinn og tvær mínútur og tuttugu og sjö sekúndur að hlaða henni niður. Sem sagt einskis virði.

Niðurhalið skilur ekkert eftir sig nema skítabragðið en mér mun alltaf þykja vænt um vínilplöturnar sem ég sannarlega vann fyrir.