Undanfarin ár hefur Hafnarfjarðarbær átt í samningaviðræðum við ríkið um kaup bæjarins á 85% hlut þess í St. Jósefsspítala við Suðurgötu 41. Mikilvægum áfanga var því náð  í sumar þegar Hafnarfjarðarbær eignaðist húsnæðið að fullu. Í kaupsamningi um húsið skuldbindur Hafnarfjarðarbær sig til þess að reka almannaþjónustu í húsinu í 15 ár og hefja starfsemi innan þriggja ára.

Með almannaþjónustu er átt við starfsemi í félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, menningar- og fræðslustarfsemi eða annarri sambærilegri þjónustu sem almenningur sækir. Tillögur um framtíðarnot þurfa að rúmast innan þess ramma sem þarna er settur en stærð hússins, sem er tæplega 3000 fm, opnar hins vegar á fjölbreytt afnot og samnýtingu ýmis konar starfsemi.

Spítalinn er byggður í þremur megin áföngum. Fyrsti áfangi var byggður árið 1926 og var það húsameistari ríkisins Guðjón Samúelsson sem teiknaði spítalann. Árið 1954 var spítalinn stækkaður til norðurs og  byggt yfir kapelluna. Aftur var húsið stækkað og byggð ný álma til suðurs árið 1973, sem lokið var við nokkru síðar. Þar voru m.a. útbúnar nýjar skurðstofur og íbúð fyrir nunnurnar á efri hæðum, en nunnur St.Jósefsreglunnar, sem stofnuðu spítalann, sinntu  hvoru tveggja, heilsugæslu og hjúkrun í spítalanum sjálfum og ráku skóla fyrir börn handan götunnar allt frá 1938. Það er því óhætt að segja að bæði spítalinn og starfsemi hans hafi verið  í stöðugri þróun og ber húsið þess glöggt vitni. Hægt er að greina ólíka tíma m.a. í innréttingum þrátt fyrir að reynt hafi verið að aðlaga viðbyggingar að upphaflegu útliti byggingarinnar.

Undanfarin misseri hafa komið fram margar áhugaverðar hugmyndir um framtíðarnot hússins. Borist hafa erindi til bæjarfélagsins  m.a. frá ýmsum félagasamtökum sem hafa áhuga á að fá afnot af hluta hússins til lengri eða skemmri tíma. Starfshópurinn um framtíðarhlutverk St. Jósefsspítala sem skipaður var í sumar,  telur mikilvægt að gefa sem flestum tækifæri til að senda inn tillögur og þá eru vafalaust margir sem hefðu áhuga á að koma og skoða þessa gömlu og fallegu byggingu.

Til þess að gefa sem flestum tækifæri til þess, var haldið opið hús í St. Jósefsspítala í dag, 2. september. Boðið var upp á stutta leiðsögn um húsið – út frá kapellunni, en einnig var hægt að kynna sér sögu þess yfir kaffisopa.

Hafnfirðingar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að senda inn tillögur að því hvernig þeir sjá fyrir sér framtíðarnot hússins. Hægt verður að skila inn tillögum í gegnum vefsíðu Hafnarfjarðarbæjar, fram til 15. september. Að  því loknu eða í október mun starfshópur um framtíðarnot St. Jósefsspítala skila af sér tillögum um framtíðarnot húsnæðisins til bæjaryfirvalda sem taka ákvörðun í kjölfarið.

Starfshópur á vegum Hafnarfjarðarbæjar um framtíðarhlutverk St. Jósefsspítala

Mynd: Olga Björt