Faðir minn verður 77 ára eftir tæpan mánuð. Hann hætti að reykja fyrir meira en 50 árum. Það var áður en vitað var almennilega um skaðsemi tóbaksneyslu. Hann drekkur ekki lengur áfengi, syndir á morgnana og lyftir lóðum þrisvar í viku.

Pabbi hefur alltaf verið á undan sinni samtíð. Þegar hann var stýrimaður á fraktskipum Eimskipafélagsins á 7. áratugnum gerði hann Charles Atlas æfingar um borð og sippaði. Og skipsfélagarnir hlógu að honum eða hristu hausinn.

Þegar hann starfaði síðar hjá Varnarliðinu sem brunavörður hljóp hann alltaf til og frá vinnu. Hann gekk á fjöll með björgunarsveit og áfram lyfti hann lóðum. Hann fékk viðurkenningu sem trimmari ársins hjá UMFN, löngu áður en hlaupahópar komust í tísku, og var fyrstur Íslendinga til að gefa 100 sinnum blóð árið 1992. Hann gerði sér grein fyrir hversu mikilvæg hver blóðgjöf er og lagði kapp á að leggja sitt af mörkum sem lengst.

„Heilbrigð sál í hraustum líkama“ skrifaði pabbi m.a. í minningabókina mína þegar ég var 12 ára og í uppeldinu benti hann okkur systkinum á bækur eins og Líkami fyrir lífið og Hjartað og gæsla þess. Hann vissi alltaf innst inni hvað þarf til að halda góðri heilsu. Og hann gerir það enn í dag. Hann fór í allsherjar „ástandsskoðun“ á síðastliðnu ári og kom vel út.

Ég fagna samstarfi Hafnarfjarðarbæjar og Janusar Guðlaugssonar því ég hef fyrir augum góðan árangur heilsueflingar af öllu tagi. Eins og pabbi, þá vitum við öll innst inni hvað hún er mikilvæg. Þetta snýst bara um ákvörðun um að þykja vænt um heilsuna og treysta þeim sem þekkja vel til hvaða skref er best að taka næst.

Lengi lifi Hafnfirðingar!

Olga Björt Þórðardóttir, ritstjóri.