Einbeiting – Hæfileikinn til að veita atriðum sem skipta máli óskipta athygli og þeim sem ekki skipta máli enga athygli. Með öðrum orðum að veita einhverju fullkomna athygli.

Nám í víðu samhengi – Að öðlast þekkingu, kunnáttu og hæfni. Hvers virði er það að ná fram einbeitingu barns þegar nám fer fram eða… ætti að fara fram?

Í Barnaskóla Hjallastefnunnar leggja kennarar mikið uppúr því að börn hafi tækifæri til að koma sér fyrir eins og þeim líður best. Þannig stuðla þeir að því að einbeiting sé til staðar hverju sinni. Stundum er gott að hafa stól og borð og í sumum tilfellum getur verið enn betra að hafa góða mottu. Í enn öðrum aðstæðum getur verið frábært að standa og anda að sér fersku lofti.

Það liggur fyrir að börn á aldrinum 6 – 9 ára hafa ríka þörf fyrir hreyfingu og rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að sitja ekki of lengi við með tilliti til úthalds og einbeitingar. Eins hefur verið bent á að við aukum helst við þekkingu okkar og hæfni þegar við stöndum eða erum á hreyfingu.

Fullkomin athygli eykur líkurnar á því að barn öðlist frekari þekkingu, kunnáttu og hæfni.

Í Barnaskólanum sýna niðurstöður lesfimiprófa  að börnin standa mjög vel samanborið við önnur börn á sama aldri í Hafnarfirði. Er því tilefni til að staldra við, sundurgreina og rýna í hversu mikið vægi það hefur, þegar lestrarþjálfun fer fram, að fagfólk stuðli að því að barn nái að einbeita sér – Nái að veita lestrinum fullkomna athygli.

Hildur Sæbjörg Jónsdóttir