Tónlistarmanninn og leikskólakennarann Harald F. Gíslason þekkja flestir sem Halla í Pollapönk og Botnleðju og kraftmikinn formann Félags leikskólakennara. Halli hefur nú bæst í hóp íslenskra barnabókahöfunda með sinni fyrstu bók, Bieber og Botnrassa. Ef það er einhver sem ætti að hafa reynslu af því hvað börn vilja lesa og hlusta á, þá er það Halli. Við náðum honum í örstutt spjall.

„Um síðustu áramót ákvað ég að nýta frítíma minn betur á kvöldin eftir að börnin voru sofnuð. Konan mín er í meistaranámi og hennar tími fór að mestu leyti í að rýna í skólabækur. Í stað þess að skipta vélrænt á milli sjónvarpsstöðva eða hanga á Facebook ákvað ég að byrja að skrifa barnabók,“ segir Halli og hann setti sér jafnframt það markmið til að byrja með að skrifa einn kafla á kvöldi. Fimmtíu og einu þúsund orðum seinna var Bieber og Botnrassa fædd.

Byrjaður á næstu bók

„Bókin er hugsuð fyrir börn og unglinga frá 8 ára og uppúr. Þetta er spennusaga með sakmálaívafi. Tónlist og hljómsveitabrölt kemur mikið við sögu.“ Bókin fjallar í stuttu máli um Andreu, Elsu Lóu, Tandra og Stjúra sem komast heldur betur í feitt þegar þau sjá auglýsta hljómsveitakeppni í Hörpu. Sigurvegarinn á möguleika á að fylgja sjálfum Justin Bieber á alheimstúr. Vandamálið er að krakkarnir í hljómsveitinni Botnrössu eru bara 12 og 13 ára og svo er mamma Andreu í hrikalegu veseni. Þau fjögur eru staðráðin í að semja algjöran hittara fyrir keppnina og bjarga mömmu Andreu. „Ég er þegar byrjaður að vinna að næstu bók og það er aldrei að vita nema hljómsveitin Botnrassa verði þar líka í aðalhlutverki,“ segir Halli.

 

Myndir: Haraldur F. Gíslason.